136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

Ríkisendurskoðun.

416. mál
[14:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég er ekki viss um að þetta frumvarp sé svo mjög mikilvægt eins og hv. 1. flutningsmaður þess sagði. Við höfum samþykkt stærri lög, t.d. neyðarlögin o.s.frv. Þetta er engu að síður mjög mikilvægt mál, alveg sérstaklega núna eftir fallið. Ég held að hv. flutningsmaður hafi kannski ekki gert sér almennilega grein fyrir hvað þetta var mikilvægt. Ég veit ekki betur en að nýju ríkisbankarnir þrír séu ohf., séu alfarið í eigu ríkisins, og þeir eiga svo hins vegar heilan her af fyrirtækjum. Ég nefni að nýbúið er að selja Árvakur. Árvakur var þá ríkisfyrirtæki á þeim tíma sem leið frá hruninu og fram að sölu og hefði þá átt að falla undir þau lög um að Ríkisendurskoðun ætti að endurskoða það.

Það sem vantar inn í lögin sem ég legg til að hv. nefnd skoði er að sett verði breytingartillaga um að skoða — þetta er í 2. mgr. 6. gr., með leyfi frú forseta:

„Enn fremur skal Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga stofnana sem reknar eru á ábyrgð ríkissjóðs eða ríkissjóður á að hálfu eða meira.“ Þarna er reyndar talað um „stofnana“, það þyrfti að skoða það. Ég vil segja: beint eða óbeint. „Eigi ríkissjóður helmingshlut eða meira í hlutafélagi, sameignarfélagi, viðskiptabanka eða sjóði …“ — beint eða óbeint. Þarna þarf að koma inn ákvæði um beint eða óbeint þannig að ekki sé nóg að endurskoða eitthvert eignarhaldsfélag sem svo eigi fullt af fyrirtækjum undir. Ríkið gæti stofnað eignarhaldsfélag um bankana þrjá og þá kæmist Ríkisendurskoðun ekki í að endurskoða bankana, hvað þá dótturfyrirtæki þeirra sem þeir eiga að fullu núna eftir hrunið, Eimskip o.fl.

Ég spurðist sem formaður efnahags- og skattanefndar fyrir stjórnarbreytinguna fyrir um það hvað ríkið væri búið að eignast mörg fyrirtæki og hvað þau hétu. Ég fékk ekki almennilegt svar við því og hef ekki fengið enn. Það er alveg greinilegt að ríkið er búið að eignast mjög stóran hluta af atvinnulífinu, beint eða óbeint, og ég lít þannig á að hv. fjárlaganefnd sé í rauninni gæslumaður þessara eigna, þ.e. eins konar fulltrúi eigandans, ríkissjóðs. Það er mjög mikilvægt að upplýsingar um allan þennan rekstur berist til eigandans og þess sem hefur eftirlit með því.

Ég legg til að frumvarpið verði afgreitt sem allra fyrst úr þeirri nefnd sem fær það til vinnslu og Alþingi afgreiði þessi lög nú þegar. Það er nefnilega orðið mjög brýnt að komið verði á endurskoðun á öllu þessu batteríi sem ríkið er búið að eignast en ég hugsa að auka þurfi mannskap, bæði hjá Ríkisendurskoðun og líka hjá fjárlaganefnd til að ráða við allt það magn af upplýsingum sem berast.

Fyrst ég er kominn í ræðupúlt, frú forseti, má ég til með að tala um lög um opinber hlutafélög. Mér sýnist sem menn séu ekki að framfylgja þeim. Umræðan síðustu dagana eða síðasta dag um jafnrétti í stjórn Seðlabankans segir mér, þar sem á að fara að kæra það o.s.frv., að menn átta sig ekkert á því að í gildi eru lög um opinber hlutafélög og þau eru svo afdráttarlaus. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Opinbert hlutafélag merkir í lögum þessum félag sem hið opinbera, einn eða fleiri hluthafar, á að öllu leyti, beint eða óbeint. Slíkum félögum einum er rétt og skylt að hafa orðin opinbert hlutafélag í heiti sínu eða skammstöfunina ohf. og má tengja orðin eða skammstöfunina heiti eða skammstöfun á hlutafélagi.“

Þetta segir mér að ríkisbankarnir eru ohf. Það er bara svo einfalt. Öll fyrirtækin sem þeir eiga, beint, eru ohf., þ.e. ef þeir eiga Eimskip, Árvakur eða hvað þessi fyrirtæki öll heita er þetta ohf. Þá gerist svolítið merkilegt því að í lögunum stendur, þó að ég sé ekki alveg sáttur við svona hausatalningar:

„Við kjör í stjórn opinbers hlutafélags skal tryggt að í stjórninni sitji sem næst jafnmargar konur og karlar.“

Það er dálítið undarlegt að við erum búin að byggja upp heilan jafnréttisiðnað en hann hefur ekki kveikt á þessu. Það er ég sem kveiki á þessu. Ég skora á t.d. Jafnréttisráð að skoða þetta ákvæði í lögunum í báðar áttir, bæði þar sem sitja eingöngu konur, sem er því miður allt of sjaldan, og líka þar sem sitja eingöngu karlmenn, sem er allt of algengt.

Síðan er líka ákvæði um að fulltrúum fjölmiðla sé „heimilt að sækja aðalfund opinbers hlutafélags. Kjörnum fulltrúum eigenda, þingmönnum ef ríkið er eigandi og viðkomandi sveitarstjórnarmönnum ef sveitarfélag er eigandi, er heimilt að sækja aðalfund með rétt til að bera fram skriflegar fyrirspurnir“. Þessu hefur ekkert verið framfylgt. Menn setja hér lög út og suður um þetta og hitt, svo er þeim ekkert framfylgt. Það er enginn sem framfylgir þeim. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra um daginn: Getur verið að allar ákvarðanir bankaráða og bankastjórna séu ógildar, vegna þess að menn hafa ekki farið að lögum við skipun þeirra, hvorki varðandi kynjajafnrétti né það hverjir megi sækja aðalfundinn, að aðalfundirnir séu ólöglegir og þar með sé stjórnin ólögleg og þar með allar ákvarðanir hennar? Mér finnst að menn þurfi að vera agaðri í framkvæmd laga og ég skora á ráðherra að fylgjast með þessu. Hæstv. fjármálaráðherra sagði reyndar í svari til mín að þetta væri til skammtíma ætlað en það stendur ekkert í lögunum um opinber hlutafélög að fyrirtækin sem eru í skammtímaeigu ríkisins séu undanskilin.

Ég held að þetta sé mjög klippt og skorið, lögin eru mjög afdráttarlaus. Þetta eru opinber hlutafélög og menn þurfa að skoða nákvæmlega hvað lögin segja og fara eftir þeim.