136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

Ríkisendurskoðun.

416. mál
[14:49]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Pétri Blöndal um að það er vel þess virði að athuga skipulag og lagagrundvöll þessara nýju ríkisbanka. Ég lýsti því hér í umræðum í gær að ég væri ekki sátt við hversu lengi menn hafa beðið með að líta á lagaumhverfið og innra skipulag bankanna og vísa þá til þess að menn séu að bíða eftir því að þeir fái nýja efnahagsreikninga og það sé hægt að ganga frá uppgjörinu. Ég hef talið að lögin eins og þeim var breytt um opinberu hlutafélögin gangi ekki nógu langt í gagnsæisátt. Þau taka ekki jafnmikið mið af aðgangi almennings til upplýsinga eins og til að mynda dönsku lögin gera. Ég tel að við þurfum að skoða þessi lög um opinber hlutafélög betur og við þurfum að taka á því hvaða lagaramma eigi að setja þessum nýju bönkum. Við getum ekki beðið endalaust eftir því. Það eru komnir fimm mánuðir eins og ég benti á í gær. Fyrst átti að bíða í 30 daga, svo 60, svo 90 og nú eru liðnir fimm mánuðir. Alltaf er því frestað að taka ákvarðanir hvað varðar innra skipulag og ytra lagaumhverfi þessara mikilvægu stofnana.