136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

samfélagsleg áhrif álvers- og virkjunarframkvæmda á Reykjanesi.

316. mál
[15:06]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu og styð þar af leiðandi þetta mál. Ég tel það mjög af því góða að fela Keili að rannsaka og fylgjast með þeirri þróun sem verður á svæðinu. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það en fróðlegt verður að sjá hvaða áhrif álver hefur á svæði eins og Suðurnesin. Þetta er reyndar þekkt varðandi Kárahnjúkavirkjun, fylgst var með — af Háskólanum á Akureyri ef ég man rétt — þróun mála á Austfjörðum og á Héraði. Fylgst var með því hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig og hver þróunin hefur orðið. Ég held að það sé mjög gott að við á Suðurnesjum fylgjumst vel með þessu og sjáum hvernig mál munu þróast í framtíðinni.

Ég held reyndar að jafnvel megi læra eitthvað af þessu fyrir aðra staði sem munu byggja upp eða fara í stórframkvæmdir eins og álversuppbyggingu eða sambærilegar stóriðjuframkvæmdir. Og ekki þarf endilega að vera um álver að ræða. Stórir vinnustaðir sem taka til sín margt fólk í vinnu geta lært af þessu, það hefur væntanlega í för með sér fjölgun á fólki inn á svæðið — hvaða áhrif hefur það á skóla og skólagöngu og ýmislegt þess háttar. Ég sé ekki ástæðu til að vera að orðlengja þetta. Ég styð þingsályktunartillöguna og vona að hún verði samþykkt hér í þinginu.