136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

vextir og verðtrygging.

401. mál
[15:46]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Fl):

Frú forseti. Hér er verið að ræða um verðtrygginguna eina ferðina enn og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson fylgir úr hlaði frumvarpi til laga um breytingu á lögum um verðtrygginguna. Í andsvari áðan sagði hv þm. Pétur H. Blöndal að gætt hefði mikils svartnættis í ræðu hv. þm. Guðjóns Arnars. Því miður er staðan þannig að margir glíma við erfiðleika vegna verðbótalána. Hv. þm. Guðjón Arnar var í raun og veru að segja frá því hvernig ástandið er. Og á meðan hv. þingmaður er í salnum langar mig til að benda á að Guðjón hefur margsinnis komið mjög jákvætt innlegg í umræðuna í þinginu, (Gripið fram í.) ekki síst í sambandi við atvinnumál, hvað hægt er að gera til uppbyggingar atvinnulífs á Íslandi, þannig að sannleikanum sé til haga haldið. En þegar við lýsum því ástandi sem nú er verður því miður að segjast eins og er að það er ekki allt í besta lagi, hv. þm. Pétur H. Blöndal. Sumt fólk hefur lent í vandræðum út af kreppunni og við því bregst Frjálslyndi flokkurinn núna.

Verðtrygging er orð sem felur í sér að sá sem tekur lán skrifar undir það að ef sykur, kaffi eða mjólk hækkar muni lánið hans fylgja þeirri vísitölu, neysluvísitölunni. Núna standa margir frammi fyrir því að þurfa að borga þessi lán og lánin hafa hækkað vegna þess að verð á öllum neysluvörum hefur hækkað mjög mikið. Það var einn maður sem sagði við mig um daginn: Ég átti 8 millj. kr. í íbúðinni minni í fyrra og nú eru þær næstum því horfnar af því að verðtryggingin er búin að éta þær upp og launin mín hafa lækkað. Af hverju vegur það ekki líka inn í vísitöluna? Af hverju eru launin ekki látin fylgja með? Og fyrst launin hafa lækkað svona mikið, hefðu lánin ekki átt að lækka líka og þannig að þar væri jafnvægi á milli? Þetta er það sem mörgum finnst ósanngjarnt. Við munum eftir þeim tíma þegar stofnaður var sérstakur hópur sem hét Sigtúnshópurinn. Það var hópur fólks sem taldi sig hafa farið mjög illa út úr verðtryggingu á lánum og margir misstu húsin sín. Auðvitað er það dapurt og þegar sagt er frá því geta menn litið á það sem svartnætti og svartsýni. Því miður var það bara staðreynd og vonandi hefur þetta fólk allt komist vel áfram eftir þennan tíma.

Þann 9. apríl 2002, minnir mig, fóru fram umræður í hv. Alþingi um skuldir heimila og ýmis vandræði sem fólk stóð frammi fyrir og voru mjög margir komnir á vanskilaskrá hjá bönkum. Í þeirri umræðu sagði hæstv. viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, að það gengi vart upp að bankar hefðu bæði belti og axlabönd þegar þeir væru með verðtryggð lán sem bæru breytilega vexti og þetta þyrfti að afnema. Ég er ekki alls kostar viss um að búið sé að afnema breytilega vexti af verðtryggðum lánum. En hvað sem um þetta má segja eru mjög margir í landinu sem standa frammi fyrir því að lánin sem þeir tóku við ákveðnar aðstæður, í verðlagi sem menn töldu vera stöðugt og vonuðu að væri í góðu lagi, hafa hækkað langt umfram laun þessa fólks þannig að það er ekkert samræmi á milli launavísitölunnar og lánskjaravísitölunnar. Það er ekkert samræmi á milli t.d. launanna sem verkakonan í Granda fær og lánanna sem hún þarf að greiða. Og hún var að taka á sig launaskerðingar. Ég vona að þeir sem eiga Granda hafi líka skorið niður hjá sér sem því nemur og sýnt þannig siðferðilegan styrk og samstöðu í því máli.

Þetta er ekki alveg nógu gott og það þarf að breyta verðbótunum. Alþingi Íslendinga tók til umfjöllunar frumvarp fyrir þó nokkrum árum sem var um afnám verðtryggingar. Það er nákvæmlega sama stefnan og Frjálslyndi flokkurinn hefur verið með um afnám verðtryggingarinnar. Því frumvarpi var vísað til hæstv. ríkisstjórnar á þeim tíma og ekkert var við gert við það. Ég man ekki betur en að hv. þm. Eggert Haukdal og fleiri hafi verið með á því frumvarpi, þar voru mjög margir alþingismenn. Aftur og aftur með nokkurra ára millibili byrjar þjóðin að tala um að verðtryggingarfyrirkomulag á lánum sé ekki alveg nógu gott vegna þess að þegar fólk heldur að það sé komið í jafnvægi og lánin aðeins byrjuð að lækka, kemur allt í einu mikið verðbólguskot og þá hækka lánin um mörg hundruð þúsund kr. Þá er ekki aftur snúið.

Á gengistryggðum lánum er þetta öðruvísi, eins og við vitum. Svo þegar gengið fellur gríðarlega er það mjög slæmt. Þess vegna vakna ýmsar spurningar upp þegar verið er að tala um að gefa þeim kost á því sem eru með gengistryggð lán, að breyta þeim yfir í íslensk verðtryggð lán þegar gengið er frekar lágt miðað við það sem verið hefur síðustu ár, þá getur það jafnvel verið varasamt. Það er hugsanlega stórhættulegt fyrir fólk að breyta dollaraláni yfir í íslenskt lán þegar gengið á krónunni er svona lágt. En við skulum vona að gengið á krónunni hækki. Ég vona líka að okkur takist að efla atvinnulífið, styrkja ferðamennskuna, styrkja þorskeldi, styrkja kræklingarækt og ýmsa góða vaxtarsprota í atvinnulífinu sem skipta miklu máli og á það viljum við líka horfa. Við viljum horfa á það með bjartsýni og sjá möguleikana sem eru í íslenskri náttúru, íslenskum miðum og íslenskri jörð. En við eigum ekki að horfa fram hjá staðreyndum. Staðreyndin er sú við stöndum frammi fyrir miklum vandamálum og mjög margar fjölskyldur standa frammi fyrir því að verðbótaþáttur lána veldur því að lánin sem hvíla á íbúðunum eru orðin hærri en íbúðarverðið. Við þessu bregst Frjálslyndi flokkurinn núna, með þessu ágæta frumvarpi sem ég vona að verði samþykkt.