136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

vextir og verðtrygging.

401. mál
[16:09]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Vegna þessara orða hv. þm. Péturs H. Blöndals, sem voru ágæt, langar mig að spyrja hann þar sem hann vék að afnámi verðtryggingar. Hv. þingmaður talaði um að það væri æskilegt að afnema verðtryggingu þegar kostur væri, ég held að ég hafi skilið það rétt, og þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvaða verðbólgustig hann telur að megi vera í landinu til að verðtrygging yrði afnumin.

Ég minnist þess að fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Steingrímur Hermannsson, talaði um að hægt væri að afnema verðbætur á lán og þá væntanlega bara almennt, auðvitað virkar það í báðar áttir, þegar verðbólga væri komin niður fyrir 10%. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað hann vilji segja um þetta.