136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

vextir og verðtrygging.

401. mál
[16:12]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svarið sem fór aðeins út í annað en það sem spurt var um svona í lokin. Ég skil þingmanninn þannig að ef verðbólga er komin niður í 4% þá sé hægt að vera með lán, bara almennt öll lán óverðtryggð. Ef að líkum lætur ættum við þá að geta séð það á næstunni þegar fer að koma verðhjöðnun og það verður náttúrlega fróðlegt að sjá hvernig það verður. Eins og fram hefur komið virkar verðhjöðnunin þannig að þá lækka eignir og þá gerist það þegar við erum með verðbætur á lífeyriseign að lífeyriseignin minnkar líka vegna þess að verðhjöðnunin hefur þau áhrif. Þannig að þeir tapa sem lenda í verðhjöðnuninni. Það segja margir að sé mjög alvarlegt ástand ef verðhjöðnun verður í einhverju landi. En hv. þm. Pétur H. Blöndal telur að þegar verðbólga er komin í 4% sé í lagi að afnema verðtrygginguna. Við skulum vona að svo verði því að það er náttúrlega kjarni málsins sem Frjálslyndir eru að tala um, þ.e. afnám verðtryggingarinnar. Menn vita þá náttúrlega hver spilin eru á borðinu þegar við erum ekki með verðtryggingu þó að vextir rjúki allt í einu upp og niður.