136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

vextir og verðtrygging.

401. mál
[16:44]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta verður bara örstutt. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson rakti hér um nauðsyn þess að taka verðtrygginguna niður. Ég er sammála þeim sjónarmiðum að nú eigi að leita allra leiða til þess að verðtryggingin fari niður og fari út í áföngum. Ég minni á frumvarp sem við fluttum hér, þingmenn Vinstri grænna, fyrr í haust, auk mín hv. þingmenn Ögmundur Jónasson og Katrín Jakobsdóttir, um að vextir af verðtryggðum lánum mættu ekki fara upp fyrir einhverja ákveðna prósentu, við nefndum þar 2%. Þegar menn eru bæði að vega saman háa vexti og háa verðtryggingu er ekki hægt að sjá neitt sérstakt réttlæti í því. Ég tek undir þau sjónarmið að eitt brýnasta mál okkar nú sé að keyra niður vextina. Við skulum vona að verðbólgan sé á niðurleið og fari niður og þá eru enn minni rök fyrir því að vera með háa vexti.

Ég vona svo sannarlega að á næstu dögum verði stýrivextir, skuldavextir og vanskilavextir — að þetta verði allt saman lækkað því að hvorki heimili né atvinnulíf standa undir þessu gríðarlega vaxtastigi og með lækkun verðbólgu verður það enn óréttlátara. Ég tek alfarið undir þau sjónarmið hjá hv. þingmanni um að eitt brýnasta mál okkar er að keyra niður vexti eins og nokkur kostur er og að allra leiða sé leitað til þess að færa verðtrygginguna niður, afnema hana eða lækka, eða setja á hana þak.