136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

vextir og verðtrygging.

401. mál
[16:47]
Horfa

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þingmaður er nokkuð sammála okkur um hvernig við leggjum þetta mál upp og fagna því. Ég vil líka vekja athygli á að hæstv. fjármálaráðherra sagði hér í ræðupúltinu fyrir örfáum dögum, sennilega í óundirbúnum fyrirspurnum, að hann teldi að afnema ætti verðtrygginguna og er það í samræmi við það sem hv. þingmaður sagði áðan.

Ég tel að það vandaverk sem við stöndum núna frammi fyrir þurfi að vinnast skipulega og menn verði að ná þeirri lendingu að fara út úr því fari sem við erum í.

Ég held að það sé tvennt í dag sem heldur uppi verðbólgunni í landinu, setur höft á atvinnulífið og eykur atvinnuleysið og vinnur þar af leiðandi gegn hagsmunum þjóðarinnar. Í fyrsta lagi okurstýrivextir sem ég held að viðhaldi atvinnuleysinu og einnig verðbólgunni. Í öðru lagi held ég að það sé verðtryggingin. Þetta samanlagt held ég að skrúfi upp verðlag í landinu og vinni okkur mikinn skaða eins og ástandið er í dag.