136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

atvinnuleysistryggingar.

287. mál
[16:49]
Horfa

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (U):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

Í frumvarpinu eru tvær greinar. Annars vegar gildistökugreinin og hins vegar efnisgreinin sem geymir breytinguna sem lögð er til að verði gerð á lögunum. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Við 14. gr. bætist ný málsgrein er verði 5. mgr., svohljóðandi:

Vinnumálastofnun er heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum b–e-liðar 1. mgr. þannig að hinn tryggði geti talist vera í virkri atvinnuleit stundi hann nám sem nýtist honum beint í atvinnuleit og er ætlað að veita honum aukin starfsréttindi, auka hæfni hans til starfa og bæta vinnufærni, svo sem iðnnám eða meistaranám. Slíka heimild má þó einungis veita hinum tryggða til tveggja ára og skal hann skila viðunandi námsárangri og uppfylla önnur þau skilyrði sem skilgreind eru í reglugerð, sbr. 6. mgr. Heimildina skal einungis veita búi hinn tryggði ekki þegar yfir þeirri menntun eða réttindum sem um ræðir.“

Gert er ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi.

Greinargerðin með frumvarpinu skýrir breytinguna sem lögð er til og ég vil leyfa mér að lesa hana, með leyfi forseta:

Frumvarpinu er ætlað að veita atvinnulausum rétt til atvinnuleysisbóta meðan á námi stendur. Lagt er til að Vinnumálastofnun fái heimild til að veita undanþágu frá skilyrði um virka atvinnuleit stundi sá sem tryggður er samkvæmt lögunum nám sem ætlað er að auka við starfsréttindi hans og bæta vinnufærni. Tekið er fram að iðnnám sem veitir starfsréttindi geti fallið undir heimildina sem og meistaranám. Að öðru leyti er ekki gerð frekari afmörkun á því hvaða nám er um að ræða og það eftirlátið félagsmálaráðherra að útfæra slíkt nánar í reglugerð. Með því er einnig gert ráð fyrir svigrúmi til að meta hvert tilvik fyrir sig. Til viðmiðunar eru þó sett þau skilyrði að námið þurfi að nýtast hinum tryggða beint í atvinnuleit hans og veita aukin starfsréttindi ásamt því að auka hæfni til starfa og bæta vinnufærni. Þá er eðlilegt að miða við að heimildin sé einungis nýtt til náms sem leiði til starfshæfni sem líklegt er að þörf sé fyrir í þjóðfélaginu til lengri tíma litið. Með því væri t.d. hægt að opna fyrir möguleika fólks til að hefja háskólanám án þess að þurfa að geyma áunna atvinnuleysistryggingu í samræmi við 25. gr. laganna.

Miðað er við að heimildin sé bundin við viðbótarréttindi eða nám og er einna helst hugsuð fyrir þann hóp atvinnulausra sem einungis býr yfir grunnmenntun til að bæta við nám sitt og auka þannig líkur á að finna starf. Samkvæmt tölum Hagstofunnar frá árinu 2007 voru 28% einstaklinga á vinnumarkaði á aldrinum 20–64 ára án viðurkenndrar starfs- og framhaldsskólamenntunar. Þetta samsvarar 45 þúsund manns. Að sama skapi er hlutfall þeirra mjög hátt meðal atvinnulausra, en tæp 60% atvinnulausra í lok árs 2008 voru einungis með grunnskólamenntun. Mikilvægt er því að bæta úrræði þessara einstaklinga til að auka vinnufærni sína með því að bæta við námsúrræðum.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, kemur fram að námsúrræði hafi þótt mjög mikilvægt vinnumarkaðsúrræði, en slíkum úrræðum er ætlað að auka vinnufærni atvinnulausra. Þó er einnig tekið fram þar að með námsúrræðum sé ekki átt við hefðbundið framhaldsskólanám eða nám á háskólastigi, samanber einnig reglugerð nr. 13/2009, um nám og námskeið sem eru viðurkennd sem vinnumarkaðsúrræði. Í frumvarpinu er því um víkkun hugtaksins að ræða vegna aðstæðna í samfélaginu og, í samræmi við markmið vinnumarkaðsaðgerða, er gert ráð fyrir að þessi breyting nýtist atvinnuleitendum beint og auki ráðningarmöguleika þeirra til framtíðar.

Sú kvöð er þó lögð á þá sem nýta sér námsúrræði laga um vinnumarkaðsaðgerðir að þeir þurfi að vera tilbúnir að taka þau störf sem þeim bjóðast, sbr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með frumvarpinu er opnað fyrir þann möguleika að útfæra nánar vinnumarkaðsúrræðin með því að breyta viðeigandi reglugerðum þannig að til boða standi lengra nám sem ekki þarf að hætta að stunda ef starf býðst. Slíkt nám nýtist einstaklingum þegar vinnumarkaður tekur við sér að nýju og er einnig þjóðfélaginu til góða þar sem sérþekking og vinnufærni einstaklinga eykst.

Svo hljóðar greinargerðin með frumvarpinu sem ætlað er að lýsa tilganginum með því og svo sem ekki miklu við það að bæta.

Ég hygg að flestir geti verið sammála um að fólk sem komið er út á vinnumarkað og er yfirleitt búið að stofna fjölskyldu og koma sér þaki yfir höfuðið, með tilheyrandi skuldum og skuldbindingum, er ekki vel í stakk búið til að hefja nám þegar það hefur misst vinnuna. Það hefur engar tekjur og þarf að kosta námið eingöngu með láni frá Lánasjóði íslenskra námsmanna ef þau eru í boði. Með þessu móti gefst fólki kostur á að halda atvinnuleysisbótum í tvö ár, sem má segja að séu ígildi tekna eða launa á þeim tíma, og þörf fyrir lántöku verður þá minni sem því nemur. Þannig er líklegra að viðkomandi einstaklingar séu í færum til að kljúfa fjárhagslega að stunda það nám sem þeir hafa kosið sér og er ætlað til þess að auka vinnufærni, eins og það heitir, og gera þeim kleift að stunda störf sem þeir áður höfðu ekki kunnáttu til eða menntað sig til. Aðgerðin sem slík er því skynsamleg. Hún er líklega þjóðhagslega hagkvæm og breytir getu einstaklinga á vinnumarkaði í samræmi við þörfina á hverjum tíma, eða a.m.k. á þeim tíma sem menn sjá fram í tímann.

Þetta er tilgangur málsins. Hann er brýnn núna, sérstaklega þegar fjöldi atvinnulausra er kominn upp í 17 þúsund manns samkvæmt nýjustu tölum og nálgast það 10% atvinnuleysi. Við þær aðstæður er nauðsynlegra en áður að opna slík úrræði fyrir atvinnulausa.

Ég hygg að ef gripið yrði til þessa ráðs, sem auðvitað kostar töluvert fé úr ríkissjóði, muni það þegar til lengri tíma er litið skila sér til baka í vinnuafli sem hefur meiri getu á því sviði sem um er að ræða. Störf eru þá unnin af fólki sem kann til verka og það skapar tekjur fyrir ríkissjóð. Allt snýst þetta um að þessi hringrás nái að snúast og þegar upp er staðið mun ríkissjóður líklega standa vel til lengri tíma, m.a. vegna aðgerða sem þessara.

Ég legg til, virðulegur forseti, að málinu verði vísað til hv. félags- og tryggingamálanefndar að lokinni þessari umræðu.