136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

umferðarlög.

93. mál
[16:58]
Horfa

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum. Auk mín flytja þetta mál hv. þm. Karl Matthíasson, Ólöf Nordal, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Árni Þór Sigurðsson og Ármann Kr. Ólafsson.

1. gr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Við 2. gr. laganna bætist ný orðskýring í réttri stafrófsröð, svohljóðandi:

Forgangsakrein:

Akrein sem einungis er ætluð fyrir umferð strætisvagna og leigubifreiða.“

2. gr. laganna er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Við 2. mgr. 13. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Almenn umferð ökutækja um forgangsakreinar strætisvagna og leigubifreiða er óheimil.“

Tilgangurinn með þessum breytingum er að skilgreina svokallaðar forgangsakreinar í lögum og frumvarpið er liður í því að efla almenningssamgöngur. Á næstunni er reyndar von á endurskoðuðum umferðarlögum frá samgönguráðuneytinu og hæstv. samgönguráðherra, en engu að síður er þetta mál flutt í von um að það verði samþykkt og verður það þá vonandi skref til þess að fleiri forgangsakreinar verði í umferðinni og að almenningssamgöngur verði raunhæfur kostur í fyllingu tímans.

Málið er, frú forseti, að töluvert hefur borið á því að þessar forgangsakreinar hafi ekki verið virtar, þ.e. að bílar hafi keyrt á þessum merktu akreinum. Má t.d. nefna Miklubraut og Lækjargötu. Það tefur auðvitað fyrir strætó. Vandinn er sá að vantað hefur skilgreiningu í lögunum um forgangsakreinar til þess að lögreglan geti gripið til viðeigandi ráðstafana og beitt sektum eða öðrum úrræðum þegar fólk brýtur þetta bann.

Tilgangurinn með flutningi frumvarpsins er að skilgreina slíkar akreinar. Verði frumvarp þetta að lögum er lögð áhersla á að samgönguráðherra skerpi á sektarheimild vegna brots á ákvæðinu í reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim, nr. 930/2006, að fengnum tillögum ríkissaksóknara, sbr. 4. mgr. 100. gr. umferðarlaga, eins og segir í greinargerðinni.

Um þetta mál þarf ekki að hafa fleiri orð, frú forseti, og læt ég þetta því duga.

Herra forseti. Ég vil biðjast afsökunar á því að hafa ávarpað herra forseta sem frú.

(Forseti (KHG): Forseti gerir engar athugasemdir við slíkt ávarp og veit að það var vel meint.)