136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

almenn hegningarlög.

127. mál
[17:03]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum. Meðflutningsmaður minn er hv. þm. Þuríður Backman.

Með frumvarpinu er lögð til sú breyting að 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga orðist svo, með leyfi herra forseta:

„Hver sem gerist sekur um nauðgun skal sæta fangelsi ekki skemur en 2 ár og allt að 16 árum.“

Í XXII. kafla almennra hegningarlaga er fjallað um kynferðisbrot og er 1. mgr. 194. gr. svohljóðandi, með leyfi herra forseta:

„Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum.“ Eins og sjá má er lögð megináhersla á verknaðaraðferð, líkamlegt ofbeldi, líkamlega áverka og hótanir. Sú áhersla hefur endurspeglast í rannsóknum nauðgunarmála þar sem andlegum áverkum hefur verið lítill gaumur gefinn. Aukin þekking á afleiðingum nauðgana hefur hins vegar fært okkur vitneskju um að andlegir áverkar eru alvarlegustu afleiðingar nauðgana. Nauðsynlegt er að lögin endurspegli þekkinguna á málum er snerta kynbundið ofbeldi. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting á 1. mgr. 194. gr. að áherslan á verknaðaraðferðina verði algjörlega felld út úr textanum enda ljóst að orðalag greinarinnar samrýmist ekki þeirri grundvallarhugsun sem býr að baki mannréttindaákvæðum um friðhelgi einkalífs.

Friðhelgi einkalífs er samheiti ýmissa mannréttinda sem varin eru af stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum. Friðhelgin nær yfir heimili, fjölskyldu og persónulega hagi manns, og umfram allt það að hver maður hefur rétt til lífs og rétt til að ráða yfir eigin líkama og sálarlífi, sem eru mikilvægustu einkalífsréttindin. Rétturinn til lífs þarf einnig að samræmast sjálfsvirðingu manna, réttinn til frelsis, mannhelgi og að þurfa ekki að þola ólögmætar þvinganir.

Þrátt fyrir að mannréttindin sem talin eru í mannréttindasáttmála Evrópu séu að meginstefnu réttindi sem vernda einstaklinginn fyrir óþarfa afskiptum og þvingunum af hálfu ríkisins, þá er þess krafist af ríkinu að það tryggi að þessi mannréttindi verði virk í reynd. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur nokkrum sinnum tekið á því og ég vil nefna mál gegn Hollandi. Þar var deiluefnið að ekki var hægt að ákæra mann fyrir kynferðislega misnotkun á andlega fatlaðri stúlku þar sem hollensk refsilög höfðu engin slík ákvæði. Niðurstaða dómsins var sú að athafna ríkisins væri þörf til að gera vernd þessara réttinda virka.

Ég vil í öðru lagi nefna dóm Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem búlgarska ríkið var ekki talið hafa staðið með fullnægjandi hætti að lögreglurannsókn og meðferð nauðgunarmáls og þar með ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt sáttmálanum um að gera mannréttindin virk í raun.

Ég vil geta þess, herra forseti, að að mörgu leyti er staða í nauðgunarmálum áþekk hér á landi og í því máli sem búlgarska ríkið var dæmt brotlegt við mannréttindasáttmálann. Ég kem betur að því síðar.

Í bók sinni „Unwanted Sex: The Culture Of Intimidation And The Failure Of Law“ leggur Stephen Schulhofer, lagaprófessor við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, áherslu á að refsiákvæði um nauðganir ættu að snúast um hugmyndina um kynfrelsi einstaklingsins. Schulhofer skilgreinir kynfrelsi sem kynferðislegan sjálfsákvörðunarrétt, þ.e. „réttinn til að velja og hafna kynferðislegu samneyti, hvar sem er, með hverjum sem er og hvenær sem er“, eins og Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir lögfræðingur, þýðir það í kandídatsritgerð sinni „Nauðgun frá sjónarhóli kvennaréttar“. Schulhofer telur að kynferðislegt sjálfræði eða kynfrelsi eigi að vera grundvallarhugtak í lagasetningu um kynferðisofbeldi og að brotið sé gegn kynfrelsi þegar gerandinn sýnir kynferðislega hegðun án þess að tryggja að hann hafi til þess fullgilt samþykki hjá þeim sem hegðunin beinist að.

Konur hafa á grundvelli reynslu sinnar skilgreint nauðgun sem kynferðisofbeldi karla þar sem sjálfsákvörðunarréttur kvenna er virtur að vettugi og réttur þeirra til sjálfsstjórnar brotinn á bak aftur.

Fyrir 4. apríl 2007 var nauðgunarákvæðið orðað nokkurn veginn með þeim hætti að hver sem með ofbeldi eða hótun um ofbeldi þröngvar manni til holdlegs samræðis. Þessu var breytt 2007 með lögum og þá er talað um að hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung.

Samkvæmt orðalagi beggja þessara ákvæða, bæði fyrri ákvæðanna og ákvæðanna sem lögfest voru 2007, skiptir verknaðaraðferðin meira máli en verndarhagsmunirnir og samþykkið. Í nauðgunarmáli samkvæmt núgildandi lögum þarf ásetningur gerandans að ná til allra efnisþátta nauðgunarákvæðisins og þess virðist krafist að gerandinn hafi gert sér grein fyrir því að verknaðurinn hafi verið framinn gegn vilja brotaþola eða þolandans. Í málum þar sem engir líkamlegir áverkar sjást snýst því sönnunin oft um það hvort gerandinn hafi gert sér grein fyrir því hvort þolandi var samþykkur samræðinu eða ekki.

Það er athyglisvert þegar maður skoðar þessi ákvæði og ber þau saman við önnur hegningarlagaákvæði sem vernda friðhelgi einkalífs. Það kemur til að mynda í ljós þegar maður skoðar bréfleyndarákvæði 228. gr. almennra hegningarlaga að nauðgunarákvæði 194. gr. veitir líkömum og sálarlífi kvenna minni réttarvernd en bréfleyndarákvæði 228. gr. Sama gildir um húsbrotsákvæði 231. gr. almennra hegningarlaga sem segir ef maður ryðst heimildarlaust inn í hús, þar er talað um heimildarlaust. Þar er verið að höfða til samþykkisins. Um þetta hegningarákvæði gildir hið sama og um 228. gr. almennra hegningarlaga Verndarhagsmunirnir eru minni og alls ekki jafnströng skilyrði um verknaðaraðferð og 194. gr. laganna, um nauðgun, kveður á um. Í húsbrotsákvæðinu er beinlínis höfðað til þess að samþykki þurfi að vera til sem er í fullu samræmi við 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs.

Þegar gerður er samanburður á nauðgunarákvæði almennra hegningarlaga og öðrum líkamsofbeldisgreinum þá kemur hið sama í ljós. Í 211. gr. almennra hegningarlaga segir að hver sem sviptir annan mann lífi skuli sæta fangelsi ekki skemur en fimm ár.

Hér skiptir engu máli hvernig manndráp er framið og líknarmorð eru líka refsiverð. Í líkamsárásarmálum skipta afleiðingarnar einnig mestu varðandi sönnun en ekki verknaðaraðferð. Þær eru refsiverðar jafnt í manndráps- og líkamsárásarmálum, sama hvernig að ofbeldinu var staðið. Afleiðingarnar, þ.e. líkið eða líkamstjónið, ráða sönnun finnist gerandinn. Í nauðgunarmálum er hins vegar eins og ég sagði áðan lögð megináhersla á að hægt sé að sanna verknaðaraðferðina, að ofbeldi hafi verið beitt eða hótunum um ofbeldi.

Þessi þrenging miðað við önnur ofbeldisbrot hefur einfaldlega leitt til þess að aðeins hefur verið sakfellt í afar litlum hluta kærumála sem borist hafa lögreglu vegna nauðgana. Á árinu 2003 bárust lögreglu um 105 kærur. Ég held að það hafi verið sakfellt í innan við fimm þeirra. Þetta eru skelfilegar tölur sem er alveg ótrúlegt að skuli birtast í íslensku réttarvörslukerfi.

Það er reyndar svo að réttarvörslukerfið gefur þessum andlegu afleiðingum nauðgana afar lítinn gaum og sú staðreynd er meginhvati þess að þetta frumvarp er flutt. Þessi mismunun eftir ofbeldisbrotaflokkum og núgildandi nauðgunarákvæði standast ekki mannréttindaákvæði um friðhelgi einkalífs.

Afleiðingar nauðgana eru skelfilegar, bæði andlegar og aðrar. Ég ætla að víkja að þeim næst í ræðu minni. Í mars 2005 lýsti mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna yfir áhyggjum vegna ofbeldis gegn konum á Íslandi og þá sérstaklega vegna kynferðisofbeldis. Í athugasemdum eins nefndarmanns, Finna, segir m.a., með leyfi herra forseta:

„Were all the women lying or did authorities just not care? Was the message that women should just not report the cases because they would only get into trouble?“ (Forseti hringir.)

(Forseti (KHG): Forseti vill vekja athygli á því að ákveðið hefur verið af forsætisnefnd að þegar vitnað er í erlenda texta eigi það að vera stutt og þýtt jafnóðum á íslenskt mál.)

Herra forseti. Textinn er ekki lengri og ég hélt að örstuttir textar væru leyfilegir en ég mun virða þá reglu sem hæstv. forseti tilkynnir mér hér. Textinn hljóðar í lauslegu þýðingu minni, herra forseti: Voru allar konurnar að ljúga eða var stjórnvöldum alveg sama? Voru skilaboðin þau að konur ættu ekki að kæra vegna þess eins að þær mundu lenda í meiri vandræðum með kærumál?

Ég verð að ítreka að andlegar afleiðingar eru mun meiri, alvarlegri og varanlegri en hinar líkamlegu. Það eru beinlínis löglíkur, ég fullyrði það, löglíkur, lögfull sönnun að öllum sönnunarreglum í opinberum málum að nauðgun hafi verið framin ef fyrir liggur að áliti sérfræðinga að þolandi hafi orðið fyrir slíku áfalli við kynmök að þau andlegu einkenni sem ég mun telja hér upp á eftir eru til staðar ef það kemur fram.

Í skýrslu nauðgunarmálanefndar frá 1989 kemur fram að 48% kvenna veittu enga mótspyrnu við nauðgunina, en í 26% tilvika var mótspyrnan aðallega fólgin í því að reyna að verja sig lítillega og mótmæla verknaðinum. Aðeins fjórðungur kvenna veitti virka líkamlega mótspyrnu.

Frá því er greint í skýrslunni að rúmur helmingur kvennanna hlaut nánast enga líkamlega áverka, hjá þriðjungi þeirra voru áverkarnir minni háttar, rispur, roði á húð, þroti og marblettir. Umtalsverðir líkamlegir áverkar komu fram í aðeins um 10% tilvika. Sönnun verður því ekki sótt í líkamlega áverka nema í minni hluta nauðgunartilvika. Samkvæmt alþjóðlegum sjúkdómsgreiningaskrám er áfallið í kjölfar nauðgunar líkt því sem einstaklingar verða fyrir við stórfelldar náttúruhamfarir, stríðsátök og stórslys. Það er sameiginlegt með þessum aðstæðum að þolandinn hefur það ekki í hendi sér hvort hann lifir eða deyr. Þessum áföllum fylgja oft mjög sterk viðbrögð sem kallast áfallastreituröskun. Almennt getur slík lífsreynsla leitt til viðvarandi ástands.

Líkamleg viðbrögð við nauðgun eru eftirfarandi: Skjálfti, hraður hjartsláttur, kviðverkir, niðurgangur, ógleði. Uppköst og svimi eru mjög áberandi og geta valdið hræðslu og óöryggi, eirðarleysi, grátköst og ótti sömuleiðis. Þessi fyrstu viðbrögð vara mjög stutt. Á þeim tíma geta tilfinningaviðbrögð verið frekar lítil en ekki í samræmi við aðstæður.

Það er eitt alveg öruggt, herra forseti, að þær tímabundnu afleiðingar sem ég hef hér lýst koma ekki fram í kjölfar sjálfviljugra kynmaka og sanna svo ekki verður um villst að nauðgun hefur átt sér stað. Langtímaafleiðingar andlegar eru hins vegar sýnu verri og alvarlegri. Skömm er algengasta afleiðingin, það eru 85% þolenda á móti 55% sem sýna reiði. Þunglyndi eftir nauðgun getur orðið langvarandi, þunglyndi og depurð leiða oft til kvíða, svefntruflana og einangrunar. Einnig er hætta á sjálfsvígstilraunum. Erfiðleikar í kynlífi koma fram og svokallaðar svipmyndir þar sem þolandinn upplifir atburðinn aftur og aftur. Konur deyfa allar tilfinningar um atburðinn og alvarleg hegðunarvandamál og einbeitingarskortur eru þekkt dæmi.

Afleiðingar eru öllu alvarlegri til langs tíma litið, sumir þolendur þróa með sér varanlegan sjúkdóm sem mótar allra þeirra tilveru og fjölskyldna þeirra til frambúðar. Stöðug spenna getur fylgt í kjölfarið og ef ekkert er að gert gefur sig eitthvað, líkamlegt eða andlegt. Fram hefur komið í viðtölum við sérfræðinga að 60–70% kvenna með geðraskanir og kvenna sem missa tök á lífi sínu, lenda til að mynda í neyslu fíkniefna og afbrotum, eiga að baki sögu um kynferðislegt ofbeldi. Ég vil líka taka það fram að kynferðisofbeldi og afleiðingar kynferðisofbeldis er eitt stærsta heilbrigðisvandamál heimsins í dag sem snýr að konum.

Orðalag áður gildandi og núgildandi ákvæða almennra hegningarlaga endurspeglar ekki rétta þróun á sviði mannréttinda. Sama gildir um rannsóknir, sönnunarmat, ákærur og dóma í þessum málaflokki eins og tölulegar staðreyndir staðfesta. Ég ítreka það að af 103 tilkynningum til lögreglu 2003 um nauðganir eða kynferðisbrot leiddu aðeins 5 til sakfellinga fyrir dómi. Þessar tölur segja allt sem segja þarf um réttarvernd kynfrelsis en orðalag ákvæðanna skýrir ekki allt. Það má setja stór spurningarmerki við rannsóknir, sönnunarmat og sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum. Ég held því fram hér, herra forseti, að með því að samþykkja þessi lög sé alls ekki verið að breyta neinum sönnunarreglum heldur að beina sjónum réttarvörslukerfisins til hinna andlegu afleiðinga, til hinna raunverulegu sannana. Ég árétta að tímabundnar og varanlegar andlegar afleiðingar nauðgana eru augljósar og þekktar og einatt miklu alvarlegri og síður læknanlegar en líkamlegir áverkar meiri háttar líkamsmeiðinga. Komi þessar andlegu afleiðingar fram eftir kynmök eru fram komnar fullnægjandi sannanir fyrir því að þolandanum hafi verið þröngvað til kynmaka, að ofbeldi hafi verið beitt, andlegu ofbeldi.

Ég ítreka að hér er verið að beina sjónum réttarvörslukerfisins að sönnunargögnum sem það hefur vanrækt að afla í nauðgunarmálum. Frumvarpið gerir alls ekki ráð fyrir að slakað verði á sönnunarkröfum, meginreglum opinbers réttarfars um sönnun, enda engin þörf á því til að ná fram sakfellingum ef réttra aðferða er gætt. Frumvarpið sýnir einnig þann vilja löggjafans að dómstólar þyngi refsingar fyrir kynferðislegt ofbeldi með því að færa lágmarksrefsingu úr einu ári í tvö.

Að öðru leyti, herra forseti, varðandi þetta mál leyfi ég mér að vísa í mjög ítarlega greinargerð sem fylgdi frumvarpi þessu en hún byggir á fræðigrein sem ber heitið „Réttarvernd kynfrelsis“ og er eftir Atla Gíslason, sem hér stendur, og Jóhönnu Katrínu Magnúsdóttur og birtist greinin í afmælisriti Guðrúnar Erlendsdóttur, fyrrverandi hæstaréttardómara, Guðrúnarbók, sem gefin var út í Reykjavík í júní 2006.

Ég vík þá að síðara frumvarpinu sem ég mæli fyrir, um breytingu á almennum hegningarlögum, en þar eru flutningsmenn auk mín hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Þuríður Backman, Katrín Júlíusdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Siv Friðleifsdóttir, Eygló Harðardóttir og Helga Sigrún Harðardóttir.

Þar er mælt fyrir því, herra forseti, að við 206. gr. almennra hegningarlaga, 1. og 2. mgr., bætist tvær nýjar málsgreinar svohljóðandi, með leyfi herra forseta:

„Hver sem lætur af hendi eða heitir greiðslu eða öðrum ávinningi fyrir vændi skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

Hver sem lætur af hendi eða heitir greiðslu eða öðrum ávinningi fyrir vændi barns undir 18 ára aldri skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um refsinæmi þess að kaupa vændi. Hér skiptir ekki máli í hvaða formi greiðslan er. Hún getur verið peningar, áfengi eða fíkniefni, hlutir eða eitthvert viðvik, greiði eða þjónusta. Þá er ekki áskilið að greiðslan eða loforð um hana renni til þess sem veitir þjónustuna enda háttsemi milligöngumanns refsiverð samkvæmt 4. mgr. 206. gr. hegningarlaga. Að sama skapi er athæfið saknæmt ef vændið er keypt fyrir þriðja aðila.

Löggjöf af þessu tagi er oft nefnd sænska leiðin og miðar við að það sé hlutverk löggjafans að sporna við sölu á kynlífi, enda sé ekki ásættanlegt að líta á mannslíkamann sem söluvöru. Einnig er gengið út frá því að ábyrgðin á viðskiptunum hvíli á herðum kaupandans en ekki seljandans, enda sé aðstöðumunur þeirra ævinlega mikill. Loks er litið svo á að það sé kaupandinn sem í krafti peninganna hafi eiginlegt val um að kaupa eða kaupa ekki, enda staða hans í langflestum tilvikum miklu sterkari en þess sem selur aðgang að líkama sínum til kynlífsathafna.

Ég vil taka það fram, herra forseti, að sænska leiðin var lögfest í Noregi með lögum nr. 104/2008. Lögin tóku gildi 1. janúar 2009 og þar eru kaup á vændi gerð refsiverð.

Í 4. mgr. 202. gr. hegningarlaga er nú þegar kveðið á um að sá sem greiðir barni eða ungmenni yngra en 18 ára endurgjald gegn því að hafa við það samræði eða önnur kynferðismök skuli sæta allt að tveggja ára fangelsi. Ákvæðið var lögfest með lögum árið 2002. Í greinargerð segir að refsinæmi brots sé bundið við að barni eða ungmenni yngra en 18 ára hafi verið greitt endurgjald gegn því að hafa við það samræði eða önnur kynferðismök. Ákvæðið nær þó ekki til þeirra sem greiða öðrum aðila fyrir samræði eða kynferðismök við barn undir 18 ára aldri. Af þessum sökum er lagt til að lögfest sé sérstakt ákvæði um refsinæmi þess að kaupa vændi af barni.

Ég vil taka það fram að frumvarp sambærilegt þessu hefur verið lagt nokkrum sinnum fyrir Alþingi af þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingar og Framsóknarflokksins. Að öllum ólöstuðum held ég að ég geti þó þakkað sérstaklega hv. þm. og hæstv. umhverfisráðherra fyrir framgöngu hennar í þessu máli. Hún hefur verið vakin og sofin yfir því og maður er stoltur af því að vera í flokki með konu sem lætur sig þessi mál skipta jafnmiklu og raun ber vitni. Það fellur svo í minn hlut og þeirra meðflutningsmanna minna sem ég hef nefnt að binda vonandi endahnút á þetta verk, fylgja því endanlega til lykta.

Fjöldi umsagna um þetta frumvarp hefur borist áður og er það því fullunnið. Það liggur fyrir vilji einstaklinga og það er mikill meiri hluti umsagnaraðila sem fylgir þessu frumvarpi og styður það mjög eindregið. Umsagnaraðilar bentu á að vændi væri ein birtingarmynd kynferðisofbeldis, réttilega, það væri oftast til komið vegna neyðar og dæmi væru þess að konur hér á landi væru neyddar til vændis ýmist beint eða óbeint. Ég vil líka taka það fram að bann við kaupum á vændi sendir mjög skýr skilaboð út í samfélagið, að það sé litið mjög alvarlegum augum að kaupa sér aðgang að líkama fólks og það sé alls ekki ásættanlegt á Íslandi að nýta sér neyð annarra í kynferðislegum tilgangi.

Ég vil taka það fram sérstaklega að Mannréttindaskrifstofa Íslands benti á í umsögn sinni rannsókn sem sænska félagsmálaráðuneytið lét gera árið 2007. Í þeirri skýrslu koma fram þær jákvæðu afleiðingar sem hin sænsku lög höfðu, þ.e. að götuvændi hafi minnkað verulega og löggjöfin hafi haft fyrirbyggjandi áhrif þannig að ungar stúlkur leiddust síður út í vændi.

Í umsögn Rannsóknastofu Háskóla Íslands í kvenna- og kynjafræðum kom fram að mikill aðstöðumunur væri á kaupanda og seljanda vændis þar sem kaupandi hefði val um það hvort hann kaupir vændið en seljandi þess hefur sjaldnast sama val þar sem vændi væri oftast stundað vegna neyðar. Flestir vita að vændi tengist mjög eiturlyfjanotkun á Íslandi og því miður eru sorgleg dæmi þess að ungar stúlkur afli viðurværis og fjármagni kaup á eiturlyfjum með því að selja líkama sinn. Þetta er auðvitað skelfilegt og sorglegt og sú staða má ekki vera uppi hér á Íslandi.

Ég vil taka það fram að í mars 2007 kannaði Capacent Gallup hug landsmanna til kaupa á vændi og 70% þjóðarinnar voru hlynnt því að sænska leiðin yrði farin hér á landi.

Ég vil líka taka það fram, herra forseti, að við þetta frumvarp er mjög víðtækur stuðningur meðal kvennahreyfinga á Íslandi, víðtækur stuðningur þeirra við að kaup á vændi verði gerð refsiverð. Haustið 2003 sendu 14 samtök þingmönnum áskorun um að leiða slíkt bann í lög. Það voru Bríet – félag ungra femínista, Femínistafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennaathvarfið, Kvennakirkjan, Kvennaráðgjöfin, Kvenréttindafélag Íslands, Neyðarmóttaka vegna nauðgunar, Stígamót, Tímaritið Vera, UNIFEM á Íslandi, Félag kvenna í læknastétt á Íslandi, Landssamband framsóknarkvenna og V-dagssamtökin. Í greinargerð með áskoruninni var lögð áhersla á tengsl klámiðnaðarins og vændis og tekið undir það sjónarmið að vændi væri kynbundið ofbeldi sem bæri að vinna gegn. Það að gera kaup á vændi refsiverð væri virk leið til varnar.

Herra forseti. Ég leyfi mér að halda því fram að umtalsverður meiri hluti þingmanna hér á þingi styðji þetta frumvarp og það verði að lögum fyrir þinglok í þessum mánuði.