136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

almenn hegningarlög.

127. mál
[17:54]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða tvö mjög mikilvæg mál. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir að koma með þau inn í þingið og leiða umræðuna og flutning málanna. Hæstv. umhverfisráðherra nefndi það fyrr í umræðunni að í morgun samþykkti ríkisstjórnin aðgerðaáætlun gegn mansali. Það var ákaflega mikilvægur og ánægjulegur viðburður að það skyldi gerast í morgun en í gær kom hópur sem hefur verið að vinna að þessari aðgerðaáætlun á fund minn og færði mér niðurstöður sínar í 25 liðum um það hvernig berjast skyldi gegn mansali á Íslandi. Annað af þessum þingmálum er mikilvægt atriði inn í þá aðgerðaáætlun. Það er mikilvægt að þingið komi að þeirri vinnu eins og gerist nú þegar þingmál um að kaup á vændi verði refsivert, kemur að frumkvæði óbreyttra þingmanna. Mig langar að nefna það hérna vegna þess hve glöð ég er yfir því að þetta mál sé komið til umræðu og hversu mikilvægt ég tel að það verði afgreitt út úr þinginu fyrir kosningar því að við gerum ráð fyrir því í aðgerðaáætlun okkar að þetta atriði verði lögfest fyrir kosningar með samþykkt þessa þingmáls.

Ég ætla ekki að fara yfir þau 25 atriði sem eru í aðgerðaáætluninni þó að ég vildi gjarnan gera það, en mig langar að nefna þrennt sem ég tel mikilvægt í aðgerðaáætluninni. Það er í fyrsta lagi það að forsætisráðuneytið mun hafa forgöngu um að setja siðareglur fyrir Stjórnarráðið og reyndar alla opinbera starfsmenn og þær munu m.a. fela í sér skýlaust bann við kaupum fulltrúa íslenskra stjórnvalda á hvers kyns kynlífsþjónustu. Þarna er verið að leggja af mörkum til að koma í veg fyrir mansal ekki aðeins hér á landi heldur einnig á erlendri grund.

Síðan er annað mál sem líka varðar þingið og það þingmannafrumvarp sem hér er til umfjöllunar. Það er að girða fyrir undanþágumöguleika í lögum um veitingastaði og skemmtanahald þannig að lögin banni alfarið starfsemi nektarstaða. Eins og menn þekkja sem hafa fylgst með þeirri umræðu, þá liggur slíkt þingmál fyrir í allsherjarnefnd og við bindum miklar vonir við að það frumvarp verði einnig afgreitt sem lög frá Alþingi fyrir kosningarnar. Með því yrðu ákveðin atriði í umræddri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn mansali uppfyllt.

Síðan er auðvitað það mál sem við erum að ræða hér, þ.e. að gera kaup á vændi refsiverð. Með því er fullnaðarsigur unninn í áralangri baráttu fjölmargra kvennasamtaka, mannréttindasamtaka, félagasamtaka og líka þingmanna. Ég ætla ekki að gera lítið úr því en í því skyni hafa ítrekað komið fram frumvörp á þingi. Ég er mjög ánægð með þetta en ég er einn af þeim þingmönnum sem hafa verið flytjandi að slíkum þingmálum. Þess vegna tel ég þetta mikinn gleðidag fyrir þá þingmenn sem hafa verið að vinna að þessum málum. Þarna fylgjum við fordæmi Svía og Norðmanna en í mörgum öðrum löndum er mikil umræða um sænsku leiðina svokölluðu. Hún er áberandi og ég tel það mikilvægt að þetta atriði sé inni í þessari aðgerðaáætlun og hér sé verið að leggja til að þetta verði lögfest því auðvitað er það þannig að eftirspurn eftir kynlífsþjónustu er megindrifkraftur mansals og það verður því ekki barist gegn mansali nema barist sé gegn kynlífsmarkaðnum í öllum sínum myndum.

Þetta vildi ég að kæmi fram í lok umræðunnar. Ég ítreka enn þakkir til þeirra sem tóku sig til og lögðu fram þetta mikilvæga mál og ég tel mikilvægt að skilaboð Alþingis í þessum efnum séu skýr. Þau verða að vera það. Skilaboðin eru skýr í aðgerðaáætluninni sem ríkisstjórnin samþykkti í morgun. Ég geri ráð fyrir að árið 2012 munum við búa við löggjöf sem ætti að geta að mestu leyti komið í veg fyrir mansal og þau frumvörp sem hér eru rædd eru liður í því.