136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[18:05]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs. Flutningsmenn þessarar tillögu eru hv. þingmenn Framsóknarflokksins, en innan flokksins hefur á undangengnum vikum og mánuðum verið unnið mjög markvisst að því að leita leiða að því markmiði okkar að koma til móts við það erfiða ástand sem blasir við íslensku atvinnulífi og íslenskum almenningi.

Þessi tillaga gerir ráð fyrir því að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að útfæra og koma til framkvæmdar eftirfarandi aðgerðum til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs. Þær eru í 18 liðum og mun ég gera nánar grein fyrir hér á eftir.

Herra forseti. Eftir fall bankakerfisins í byrjun október 2008 hefur skapast ástand í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar sem verður að bregðast við af öllu afli. Við óvenjulegar aðstæður eins og nú eru þarf að beita óhefðbundnum aðgerðum sem þessi tillaga felur í sér.

Minnihlutaríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tók til starfa 1. febrúar 2009. Framsóknarflokkurinn hefur heitið því að verja minnihlutaríkisstjórnina vantrausti á Alþingi og setti fyrir því tiltekin skilyrði. Í því fólst fyrst og fremst að þá strax yrði ráðist í efnahagslegar aðgerðir í þágu heimila og atvinnulífs. Framsóknarflokkurinn var þeirrar skoðunar að ekki mætti bíða með aðgerðir til að forða þjóðinni frá frekari áföllum en orðið höfðu. Þegar tillaga þessi er lögð fram á Alþingi er liðinn rúmlega einn mánuður frá því að minnihlutaríkisstjórnin tók til starfa og telja framsóknarmenn að ríkisstjórnin hafi ekki ráðist í þær nauðsynlegu og aðkallandi aðgerðir sem voru forsendur þess að ríkisstjórnin var mynduð með atbeina Framsóknarflokksins. Af þeim ástæðum er þessi þingsályktunartillaga lögð fram sem framlag Framsóknarflokksins til þess að ráðist verði í raunverulegar aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs og skapa forsendur til endurreisnar efnahagslífinu. Hér á eftir er gerð grein fyrir einstökum liðum tillögunnar, en eins og ég sagði gerum við tillögu um 18 aðgerðir sem eiga að koma til móts við bráðavanda heimilanna í landinu og íslensks atvinnulífs.

Í fyrsta lagi leggjum við til að vextir verði lækkaðir í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Reyndar er það svo að formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur átt viðræður við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn með rökstuðningi okkar framsóknarmanna um hvers vegna það er þjóðhagslega mjög brýnt að hefja vaxtalækkunarferli. Þær viðræður eru reyndar bundnar trúnaði en Framsóknarflokkurinn hefur unnið mjög ítarlega greinargerð og rökstuðning fyrir því af hverju við eigum að hefja stýrivaxtalækkun nú þegar. Það segir sig sjálft í 18% verðbólgu brennur eigið fé atvinnulífsins upp og heimilin, sem eru mörg hver skuldsett, glíma við gríðarlega háar byrðar vegna skulda sinna og þess vegna er brýnt að við ráðumst í þetta.

Í öðru lagi leggjum við til að lífeyrissjóðum verði veitt heimild til gjaldeyrisviðskipta. Lífeyrissjóðir eiga miklar eignir erlendis og þarf að gera þeim kleift að selja erlendar eignir og fjárfesta innan lands, kjósi þeir svo, með því að heimila þeim að eiga gjaldeyrisviðskipti. Þannig gætu lífeyrissjóðir landsins keypt krónur á hagstæðum kjörum af þeim erlendu aðilum sem eiga krónueignir hér á landi og vilja selja þær. Lífeyrissjóðirnir gætu með þessu móti selt minni hluta erlendra eigna sinna fyrr en ella fyrir sama magn af krónum og þannig nýtt ástandið sér til hagsbóta.

Í þriðja lagi leggjum við til að nú þegar verði samið við erlenda eigendur krónueigna. Talið er að erlendir aðilar eigi eignir í íslenskum krónum sem nemi 350–500 milljörðum kr. Við þess aðila þarf að ræða og við þessa aðila þarf að semja þannig að hægt sé fyrr en síðar að aflétta þeim gjaldeyrishöftum sem síðasta ríkisstjórn lagði á síðasta haust.

Við leggjum í fjórða lagi til að settur verði á fót uppboðsmarkaður með krónur en létta má þrýstingi á krónuna umfram það sem náð verður með fyrrgreindum aðgerðum með því að Seðlabankinn setji á fót uppboðsmarkað með íslenskar krónur. Það mun jafnframt flýta fyrir því að gjaldeyrishöft verði afnumin án þess að hafa í för með sér stórfellda veikingu krónunnar með tilheyrandi vanda fyrir íslensk heimili og fyrirtæki.

Í fimmta lagi leggjum við til að lokið verði við stofnun nýju bankanna fyrir 1. apríl 2009, sem er lykilforsenda þess að bankakerfið geti starfað með eðlilegum hætti, sem er nauðsynlegt til að bankakerfið geti sinnt heimilunum og ekki síst atvinnulífinu. Við framsóknarmenn höfum hér á vettvangi þingsins lýst yfir miklum áhyggjum yfir því hversu mikill seinagangur virðist vera í því að ljúka við stofnefnahagsreikninga bankanna. Þeir munu ekki fyrr geta hafið eðlilega starfsemi gagnvart heimilunum og fyrirtækjunum.

Í sjötta lagi leggjum við til að kröfuhafar fái hlut í nýju bönkunum. Með setningu neyðarlaga á Alþingi þann 6. október 2008 voru innlán gerð rétthærri öðrum skuldum bankanna og bönkunum skipt í gamla og nýja banka. Sá gjörningur gæti hæglega bakað ríkinu gríðarmikla skaðabótaskyldu. Til að koma til móts við kröfuhafa má færa þeim hlutafé í nýju bönkunum sem nemur skerðingu krafna þeirra. Með þessu móti færu einnig saman hagsmunir ríkisins og íslensks efnahagslífs annars vegar og kröfuhafa hins vegar við uppbyggingu bankanna. Kröfuhafar sæju sér hag í því að færa eignir úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju á lægra verði í því augnamiði að styrkja nýju bankana. Ríkið legði svo inn eigið fé og fengi hlutabréf í samræmi við það.

Í sjöunda lagi leggjum við til að sameining og endurskipulagning banka og fjármálastofnana verði hafin. Við höfum spurt forustumenn ríkisstjórnarflokkanna út í hvaða hugmyndir menn hafi í ríkisstjórn Íslands, m.a. um framtíð sparisjóðanna, um fyrirkomulag á íslenskum fjármálamarkaði þar sem ríkið á orðið það að 90% leyti. Hvað ætlar ríkisstjórnin sér í þeim efnum? Við teljum að sameining tveggja ríkisbanka gæti verið fýsilegur kostur. Einnig mætti sameina einn ríkisbanka fjármálastofnun eða stofnunum í einkaeigu, sparisjóðum eða bönkum.

Í áttunda lagi leggjum við til að ríkið ábyrgist lán til skamms tíma á milli banka. Millibankamarkaður með krónur hefur nánast lagst af eftir bankahrunið í október 2008. Það er verulegt áhyggjuefni, herra forseti. Ein afleiðing þess er að fjármálastofnanir þurfa að liggja með meira reiðufé í sjóðum. Það fé liggur því ónotað og bankarnir geta síður lánað fyrirtækjum fé til skemmri tíma vegna þess. Það sem atvinnulífið kallar á í dag er fjármagn. Því miður er mikil tregða í íslensku bankakerfi við að veita íslensku atvinnulífi þann stuðning sem það þarf. Á meðan segja fyrirtækin upp starfsfólki sínu í röðum, við horfum upp á eitt mesta atvinnuleysi um áraraðir og allt stefnir í að hátt í 20 þúsund Íslendingar verði atvinnulausir innan skamms. Við þessu þarf að bregðast, hæstv. forseti.

Í níunda lagi leggjum við til að aukning peningamagns verði í umferð. Eftirspurn í hagkerfinu er í algjöru lágmarki. Verðbólgan stafar fyrst og fremst af mikilli veikingu krónunnar síðastliðið ár. Til að örva eftirspurnina þarf að auka peningamagn í umferð eins og gert hefur verið víðast hvar á Vesturlöndum. Slíkt má til dæmis gera með því að setja upp sjóð sem kaupir eignir af bönkum fyrir ríkisbréf.

Í tíunda lagi leggjum við framsóknarmenn til að heimilt verði að skrá hlutafé í erlendri mynt. Fái hlutafélög heimild til skráningar hlutafjár í erlendri mynt mun það styðja við erlenda fjárfestingu. Enn fremur mun það treysta innlendan hlutafjármarkað og veitir svo sannarlega ekki af því.

Í ellefta lagi leggjum við til að drög að fjárlögum til ársins 2012 verði gerð og það verði farið í þá vinnu hið fyrsta í ljósi þeirra gríðarlegu breytinga sem hafa orðið á umhverfi ríkissjóðs.

Í tólfta lagi leggjum við til að samráðsvettvangi verði komið á fót með útflutningsfyrirtækjum og öðrum atvinnugreinum. Við leggjum til að það verði gert með þeim hætti að komið verði á fót formlegum samráðsvettvangi ríkisstjórnarinnar með helstu útflutningsfyrirtækjum og útflutningsatvinnugreinum í því augnamiði að koma í veg fyrir að starfsemi einhverra þeirra fari úr landi, til að örva starfsemi þeirra til lengri tíma og skemmri og leita leiða til að raunvöxtur útflutningsatvinnugreina verði sem mestur.

Í þeirri vinnu sem Framsóknarflokkurinn vann sem endurspeglast í þeim 18 tillögum sem við ræðum hér á vettvangi þingsins fóru sérfræðingar út á akurinn, ræddu við forsvarsmenn íslensks atvinnulífs og satt best að segja kom þeim mörgum á óvart að fulltrúi frá íslenskum stjórnmálaflokki væri kominn á skrifstofu til þeirra til þess að ræða um hvaða aðgerðir þeir sæju til þess að koma til móts við íslenskt atvinnulíf. Núverandi ríkisstjórn og fyrrverandi ríkisstjórn hafa ekki leitað nægilega samráðs til þess að koma til móts við þarfir íslensks atvinnulífs. Það er á þeim samtölum og tillögum sem við byggjum málflutning okkar hér á Alþingi.

Í þrettánda lagi leggjum við til að ríkið verði bakhjarl vegna fjármögnunar útflutnings. Mörg útflutningsfyrirtæki eiga í vanda m.a. vegna þess að tryggingar útgefnar af íslenskum bönkum eru ekki viðurkenndar erlendis. Við þessu þarf að bregðast.

Í fjórtánda lagi leggjum við til aukinn stuðning við rannsókna- og þróunarstarf.

Í fimmtánda lagi leggjum við til aðgerðir til að örva fasteignamarkaðinn.

Í sextánda lagi leggjum við til að stimpilgjöld verði afnumin, og þá m.a. til þess að örva fasteignamarkaðinn.

Í sautjánda lagi leggjum við til að þeim sem eiga óskattlagðar eignir erlendis, sem ekki hefur verið gerð grein fyrir, verði gefinn kostur á að gefa þær upp og greiða af þeim skatta auk vaxta og hugsanlegrar sektar, innan ákveðins frests, og gera þar með hreint fyrir sínum dyrum. Um leið fari fram rannsókn á eignum Íslendinga erlendis og í kjölfarið verði þeir sem ekki gáfu upp skattskyldar eignir beittir viðurlögum. Benda má á að bæði Þjóðverjar og Bretar hafa farið þessa leið. Þessari aðgerð verði komið til framkvæmdar fyrir 1. mars árið 2010.

Og síðast en ekki síst leggjum við til í átjánda lagi að ráðist verði í niðurfellingu á hluta af skuldum heimila og atvinnufyrirtækja. Þess má geta að ýmsir aðilar hafa komið fram með hugmyndir sínar um niðurfærslu skulda. Þar get ég nefnt aðila úr Sjálfstæðisflokki og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, sem hafa lagt til að menn fari í niðurfærslu á skuldum íslenskra heimila. Þau 20% sem við leggjum til að verði niðurfærð af skuldum heimila og fyrirtækja getum við fært til samræmis við verðbólgu síðustu 18 mánaða.

Hvers á einstaklingur að gjalda sem keypti íbúð fyrir 18 mánuðum og hefur horft upp á lánið sitt hækka um 20% á tímabilinu? Er það víst að sá einstaklingur hafi gert ráð fyrir því hruni og þeirri óðaverðbólgu sem geisað hefur í íslensku samfélagi á undanförnum 18 mánuðum? Ég spyr. Á það að vera þannig, herra forseti, að einungis þeir sem óvarlega fóru, fjárfestu mikið og eru þess vegna margir hverjir tæknilega gjaldþrota í dag, fái niðurfærslu á skuldum sínum? Á íslenskur almenningur, sem horfist í augu við gríðarlegt tekjutap, gríðarlegt atvinnuleysi, ekki að njóta neins heldur einungis stórgrósserar sem eru nú þegar að kaupa íslensk fyrirtæki gegn gríðarlegum afskriftum? (Gripið fram í: … Morgunblaðið.) Morgunblaðið er nefnt hér í því samhengi þar sem 3.000 milljónir voru afskrifaðar.

Ætla menn ekki að koma til móts við hina venjulegu fjölskyldu sem sér einfaldlega ekki fram úr vandamálum sínum, eða ætla menn að gera eins og Samfylkingin hefur lagt til, að greiðslumeta hvert einasta heimili og hvert einasta fyrirtæki í landinu? Hvaða tíma halda hv. þingmenn að það taki að greiðslumeta öll heimili í landinu? Við verðum komin á aðra hliðina þegar því verki verður lokið. Við höfum varað við því, við framsóknarmenn, að verði ekki gripið til róttækra aðgerða í því umhverfi sem við okkur blasir getur verið hætta á kerfishruni. Ætli menn að fljóta sofandi að feigðarósi og vera með einhverjar smáskammtalækningar gagnvart fyrirtækjum og heimilum getur farið illa. Það þarf róttækar aðgerðir í efnahagsmálum Íslendinga í dag.

Ég vil geta þess hér í fyrri ræðu minni að ég lét hafa samband við fulltrúa allra flokka í efnahags- og skattanefnd til þess að koma og ræða þær tillögur sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram. Framsóknarflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn á Alþingi sem hefur ráðist í þá vinnu að móta heildstæðar lausnir og aðgerðir fyrir heimilin og fyrirtækin. Ég krefst þess að fulltrúar annarra stjórnmálaflokka komi í þessa umræðu. Annars lít ég á það sem merki um ótta, málefnalegan ótta, vegna þess að enginn annar stjórnmálaflokkur á Alþingi hefur lagt fram þingsályktunartillögu um aðgerðir til bjargar (Forseti hringir.) heimilum og fyrirtækjum. Ég fer fram á það, um leið og ég bið hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá, að fulltrúar annarra stjórnmálaflokka á Alþingi geri hreint fyrir sínum dyrum.