136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[18:32]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal vitnar hér í tölur sem varða þann hluta þjóðarinnar sem tilheyrir ASÍ. (PHB: Nei.) — Hv. þingmaður minntist á ASÍ og talaði um að 7% félagsmanna hefðu misst vinnuna og 14% hefðu lækkað í launum, ef ég tók rétt eftir. Ég held að þessar tölur séu kannski hærri ef aðrir hópar í samfélaginu eru skoðaðir.

Hann talaði sérstaklega um Íbúðalánasjóð og hv. þingmaður veit að þegar búið er að afskrifa skuldir um 50%, en gert er ráð fyrir að 80% af þeim fáist greidd, (PHB: Það er ekki búið að lækka skuldir við Íbúðalánasjóð.) þá er þar borð fyrir báru að taka inn þau lán sem heyra undir Íbúðalánasjóð — ég veit svo sem ekki hvort það hefur nokkuð upp á sig að standa í orðaskaki. Ég heyri að hv. þingmaður hefur ákveðið að hann ætli sér ekki að sjá ljósið í þessum tillögum okkar. Hann er greinilega ósammála þeirri útfærslu sem við berum hér á borð, hann verður að eiga þá skoðun fyrir sig og allt í góðu með það.

Eins og ég sagði áðan þá eru sífellt fleiri hagfræðingar, bæði íslenskir og erlendir, að snúast á sveif með framsóknarmönnum. Þeir sjá að þessar aðgerðir eru vissulega róttækar en þetta eru aðgerðir sem þarf að ráðast í strax. Að öðrum kosti blasir við kerfishrun og ég held að hvorki ég sjálf, hv. þm. Pétur H. Blöndal eða aðrir græði nokkurn skapaðan hlut á því.