136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[18:50]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal kærlega fyrir að koma inn í þessa umræðu með mjög málefnalegum hætti og fyrir stuðning hans, að mér heyrðist, við langflestar þær tillögur sem við höfum lagt fram.

Við hv. þingmaður höfum mjög ólíka sýn á þá aðgerð sem við framsóknarmenn leggjum til, að lækka skuldir heimilanna um 20% eða sem nemur þeirri verðbólgu — því verðbólgubáli, vil ég segja — sem verið hefur hér á landi síðustu 18 mánuði. Skuldabréf íslensku bankanna á erlendri grundu fara á 7–20% af upphaflegu verðgildi þeirra bréfa. Alþjóðasamfélagið hefur sem sagt ekki meiri trú á pappírum íslensku bankanna en 7–20% af verðgildi. Enda er það svo að helmingur af skuldum gömlu bankanna verður færður niður þegar þeir fara yfir í nýju. Það er sem sagt búið að gera ráð fyrir því að afskrifa þurfi lán 50% fyrirtækja og heimila.

Eru ekki hagsmunir kröfuhafanna þeir að við forðumst mögulegt kerfishrun? Það er eins og hv. þingmaður láti það ekki hvarfla að sér að hlutirnir geti þróast með þeim hætti að ekkert verði gert og menn ætli að fara í margra mánaða vinnu við að greiðslumeta hvert einasta fyrirtæki í landinu og hvert einasta heimili, eins og Samfylkingin hefur lagt til. Hefur þingmaðurinn virkilega engar áhyggjur af því að á haustmánuðum eða jafnvel á næsta ári, þegar menn eru búnir að fara í gegnum þessa margra kílómetra þykku bunka sem eru málefni heimilanna, hvers einasta heimilis í landinu, verði vandi íslensks samfélags orðinn of mikill, að þá sé það orðið um seinan? Ef eignir allra hér á landi hrynja í verði og ef atvinnulífið verður máttlaust, er það (Forseti hringir.) þá ekki orðið kerfishrun? Telur hv. þingmaður (Forseti hringir.) enga hættu vera fyrir hendi að slíkt geti gerst?