136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[18:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Seðlabankinn er nú að gera könnun á því hvað vandinn er mikill og ekki seinna vænna því að mér sýnist umræðan vera mjög heiftarleg. Menn gera ráð fyrir kerfishruni. Þó að ég hafi nefnt könnun ASÍ sem gerð var, að ég held, á meðal allra Íslendinga um að 20% þeirra hefðu annaðhvort orðið fyrir tekjumissi eða launalækkun, sem segir mér að 80% séu ekki í vandræðum. Þó að staðan hafi versnað síðan — segjum að það séu 30% sem eru í vandræðum þá eru 70% ekki í vandræðum. (BJJ: Hvernig verður staðan í haust?) Ég hef grun um að við séum núna í toppnum hvað það varðar því að í síðasta mánuði var ekki tilkynnt um neinar hópuppsagnir. Ég held því að við séum nú í verstu stöðunni og hún muni batna héðan í frá, enda ganga spár út á það.

Varðandi að búið sé að afskrifa 50%, ég hef ekki séð þær tölur en það á væntanlega við um fyrirtæki sem geta ekki staðið í skilum og þó að skuldirnar séu lækkaðar um 20% munu þau ekki geta borgað þannig að þau verða gjaldþrota hvort sem er. Þá er búið að lækka skuldir hjá öllum hinum sem gátu borgað og hver á að borga það? Það er alveg sama hvernig maður snýr þessu og vendir, þegar menn lenda í vandræðum og þurfa að afskrifa kröfur — að láta sér detta það í hug að sá sjóður sé einhver eign. Halda menn virkilega að þegar bankar mynda sjóð til þess að verjast áföllum að það sé einhver eign og maður geti bara farið að ávaxta þá eign? Það er verið að fella niður kröfur, það er myndaður sjóður til að mæta kröfum sem menn eiga von á því að tapa þannig að það er ekki eign fyrir tíu aura. Að halda að hægt sé að taka hluta af þeirri eign og deila henni út — það er ekki hægt. Þetta verður borgað af skattgreiðendum og þetta mun þýða aukna skattgreiðslu ríkissjóðs sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun mótmæla.