136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[18:58]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal sagði að ef hann ætti 100 milljarða mundi hann ráða allt atvinnulaust fólk í vinnu í heilt ár. Ég held að hann gleymi að gera ráð fyrir því að það er kviknað í hjá honum og það verður líklega brunnið ofan af honum áður en hann nær að nota þessa peninga.

Honum er tíðrætt um að 20% niðurfelling skulda sé ófær leið á þeirri forsendu að erlendu kröfuhafarnir muni ekki samþykkja það. Ég held að við ættum kannski að spyrja þá fyrst. Það liggur fyrir að nýju bankarnir fengu lánasafn gömlu bankanna með verulegum afslætti. Það gildir ekki bara um lán atvinnulífsins, eins og hv. þingmaður lét liggja að hér, heldur lán heimilanna líka. Það er því ekki ríkið sem tapar á skuldaniðurfærslunni heldur erlendu kröfuhafarnir. Fyrir þá er skaðinn þegar skeður og flestir þeirra hafa fært niður íslenskar eignir, margir niður í 0%. Þá vil ég gjarnan spyrja hv. þm. Pétur Blöndal einnar spurningar: Ef hann lánar mér hundraðkall og ég lendi svo í vandræðum og tilkynni hv. þingmanni að ég geti ekki borgað honum nema fimmtíukall til baka, hvort tekur hann fimmtíukallinn eða rekur mig í gjaldþrot og fær ekki neitt? Þetta er bein spurning.

Síðan, af því að hv. þingmaður var tiltölulega sanngjarn — og hann er það, sanngjarn og heiðarlegur — þegar hann fór yfir tillögur okkar framsóknarmanna alveg þangað til kom að 20% niðurfellingunni. Þá upplýsti hann um það í fyrri ræðu sinni áðan að hann hefði lagt það til við Seðlabankann að farið yrði í tvöfalda gengisskráningu og að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi hafnað því algjörlega. En þar sem ég veit að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn styður sitjandi stjórnvöld, og það hlýtur að eiga við um Seðlabankann líka, vil ég benda hv. þingmanni á að það var auglýst laust starf í Seðlabankanum ekki alls fyrir löngu.