136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[19:03]
Horfa

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs. Tillagan er flutt af öllum þingmönnum þingflokks Framsóknarflokksins og hefur hv. þm. Birkir Jón Jónsson gert ítarlega grein fyrir tillögunni sem felur í sér aðgerðir í 18 liðum og kennir þar ýmissa grasa.

Ég vil fyrst segja, virðulegur forseti, að við ræðum mál sem líklega er stærsta viðfangsefnið sem við höfum staðið frammi fyrir, ég ætla nú ekki að fullyrða í sögunni en a.m.k. mjög lengi, þ.e. að vinna okkur út úr gríðarlega erfiðum málum í efnahagslífinu eftir hrun bankanna í byrjun október. Þess vegna vekur það furðu að ekki skuli fleiri hv. þingmenn taka þátt í þessari umræðu því nú gefst kjörið tækifæri til þess fyrir hv. þingmenn og flokka að koma fram og gera grein fyrir hugmyndum sínum um lausnir á vanda okkar. En hér hefur aðeins einn hv. þingmaður, a.m.k. enn þá, tekið til máls, hv. þm. Pétur Haraldsson Blöndal og flutti góða ræðu. Ég þakka honum fyrir það.

Auðvitað er það svo, virðulegur forseti, að þegar lagðar eru fram tillögur í svo ítarlegri mynd eins og hér er gert, þá eru skiptar skoðanir um sitthvað sem þar kemur fram. Af þeim tillögum um aðgerðir sem birtast í þessu skjali hefur mesta umræðan farið fram um 18. liðinn, þ.e. niðurfellingu eða lækkun skulda heimila og fyrirtækja. Þó að ýmsir aðilar hafi gagnrýnt þær hugmyndir mjög harkalega, þar á meðal forustumenn ríkisstjórnarinnar, hafa aðrir lagt upp með ýmsar hugmyndir sem í raun eru hliðstæðar þessum. Ég nefni þar sem dæmi einn frambjóðanda Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Lilju Mósesdóttur, sem hefur komið fram með hugmyndir sem eru ekki óáþekkar þessari tillögu. Í gær birtist einn frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, Tryggvi Þór Herbertsson, þar sem hann gerði grein fyrir hugmyndum sínum í nákvæmlega sömu veru og færði hann fyrir því rök sem við sáum í Kastljósi í gærkvöldi þar sem rætt var um þetta mál. Fleiri mætti nefna í þessu sambandi sem hafa verið með hugmyndir til lausna sem byggja á svipaðri hugmyndafræði og birtist í tillögu okkar.

Það vakti hins vegar athygli mína, virðulegur forseti, þegar þessar tillögur voru fyrst kynntar fyrir nokkru síðan að fyrstu viðbrögð, t.d. hæstv. forsætisráðherra, voru með þeim hætti að ég a.m.k. fékk það mjög sterkt á tilfinninguna að hún hefði ekki kynnt sér tillögurnar í þaula en engu að síður voru þær skotnar niður, ef ég má orða það þannig, og út af fyrir sig ekkert við því að segja. Það eru bara sjónarmið sem þar birtast. Ég hins vegar hef saknað þess að forustumenn ríkisstjórnarinnar ræði þessi mál efnislega og komi fram með hugmyndir sínar að lausnum. Ríkisstjórnin sem nú starfar var m.a. stofnuð með það að markmiði að ráðast í aðgerðir til að koma til móts við vanda atvinnulífsins og heimilanna í landinu. Ég ætla ekki að halda því fram að ekkert hafi verið gert. Það hefur ýmislegt komið fram, ýmis frumvörp og aðgerðir, en að mínu viti hefur ríkisstjórnin ekki komið með heildstæða aðgerðaáætlun, því miður, til að taka á þessum málum í heild sinni.

Eins og fram kemur í greinargerð okkar með þingsályktunartillögunni er það nú svo að við óvenjulegar aðstæður, eins og nú eru, verður að beita óhefðbundnum lausnum. Þær tillögur sem við höfum lagt fram í umræddu skjali eru að mörgu leyti þannig. Mér finnst hins vegar að núverandi stjórnvöld hugsi ekki þannig, því miður, og allt í lagi með það, það er sjónarmið þeirra. En ég sakna þess að enn þá hafi ekki komið fram róttækar aðgerðir til að taka á þessum málum. Ekki meira um það.

Við mótun þessara tillagna áttum við framsóknarmenn samstarf við ýmsa sérfræðinga, hagfræðinga og aðra sérfræðinga, bæði innan lands og erlendis og lögðum töluvert mikla vinnu í það að sjálfsögðu, eins og vera ber. Við erum því búin að velta þessum málum mjög vel fyrir okkur og á því byggja tillögur okkar.

Varðandi skuldsett heimili og fyrirtæki hefur komið fram að t.d. ríkisstjórnin telur að frekar eigi að fara þá leið að fjalla um einstakt mál, hvert fyrir sig, í staðinn fyrir að fara í heildstæðar aðgerðir. Ég verð að viðurkenna að miðað við stöðuna eins og hún er, og ég óttast að hún muni verða á næstu mánuðum, verði það varla vinnandi vegur að komast í gegnum það allt saman. Meðal annars þess vegna fórum við þá leið að leggja til flata niðurfærslu skulda í staðinn fyrir að taka á hverju máli fyrir sig. Við erum að tala um þúsundir mála, bæði hjá heimilum og fyrirtækjum.

Við vitum og ræddum það síðast í gær held ég um bankakerfið, að mörg fyrirtæki eru í miklum vanda með rekstur sinn vegna þess að enn þá hefur ekki tekist að veita almenna bankaþjónustu og fjármagna fyrirtækin. Það er ástand sem má ekki vara lengi vegna þess að þá er hættan sú að ýmis fyrirtæki hreinlega stöðvist með tilheyrandi atvinnuleysi o.s.frv. Það er því gríðarlega krítískt ástand uppi. Að sjálfsögðu vonum við öll að úr rætist og að ástandið verði ekki eins alvarlegt og við erum að tala um, mörg hver. Ég leyfi mér hins vegar að vera ekki mjög bjartsýnn núna, því miður, fyrir næstu mánuði og missiri, en ég vona að ég hafi ekki rétt fyrir mér í því.

Virðulegur forseti. Hér kom einn hv. þingmaður áðan í andsvar, núverandi þingmaður Frjálslynda flokksins, og hafði þá skýringu að hér væri ekki mikil umræða, að hv. þingmönnum fyndust þessar tillögur bara arfavitlausar og ekki þess virði að ræða þær, eða ég skildi hann þannig. Það getur verið sjónarmið út af fyrir sig, en við erum að ræða þau mál sem eru brýnust í dag og til framtíðar og eru stærsta úrlausnarefni okkar Íslendinga í heild sinni. Mér finnst menn skauta létt yfir slík mál með því að afgreiða umræðuna núna með þeim hætti. Ég verð að viðurkenna það, virðulegur forseti, og ítreka að ég sakna þess að ekki skuli fleiri taka þátt í henni. Sérstaklega hefði verið fróðlegt að heyra hugmyndir stjórnarliða, hv. þingmanna stjórnarflokkanna, ég tala nú ekki um hæstv. ráðherra, um það hvernig þeir sjá fyrir sér að við vinnum okkur út úr þessum málum. Það er virkilega umræðuefni sem vert væri að fara í gegnum.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegur forseti. Ég vonast til að a.m.k. sem flestar af þeim aðgerðum sem við leggjum til komist til framkvæmdar. Það eru auðvitað skiptar skoðanir eins og gengur um hvaða leiðir skuli fara en markmið okkar er það að leggja fram hugmyndir okkar, leggja til málanna, koma fram með tillögur til úrlausna og það er megintilgangur okkar framsóknarmanna með flutningi þessa máls.