136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[19:28]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Það er eitt gott við þessa þingsályktunartillögu að hún skapar umræðu. Hún gefur okkur tækifæri til að ræða um vanda heimilanna í landinu. Það er lítið annað hægt að segja um þetta „ágæta“ plagg, því að það er ýmislegt í því sem kemur sérkennilega fyrir og maður áttar sig reyndar ekki á hvað er í gangi eða hvaða pólitísku keilur verið er að reyna að slá með þessu plaggi.

Í fyrsta lagi er talað um úrlausnir í 18 liðum og hvað eigi að gera og hvernig eigi að bjarga hlutunum.

1. liður hljóðar svo: „Vextir verði lækkaðir í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.“

Eru ekki allir sammála því að lækka þarf vextina í landinu? Er það ekki ljóst? Reyndar er hægt að minna á það sem Vinstri grænir sögðu fyrir jól að það ætti ekki að gera samning við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og það ætti ekki að semja um Icesave-reikningana, það væri óráð. Þetta væru svo miklar skuldir að við gætum ekki greitt þær. Svo þegar þeir fengu stóla í ríkisstjórn með stuðningi Framsóknarflokksins ventu þeir kvæði sínu í kross þannig að í sjálfu sér bera framsóknarmenn ábyrgð á þessari ríkisstjórn, þeir geta ekkert þrætt fyrir það.

2. liður: „Lífeyrissjóðum verði veitt heimild til gjaldeyrisviðskipta.“

Lífeyrissjóðir hafa að hluta til heimild fyrir gjaldeyrisviðskiptum. Væntanlega er þá átt við að það eigi auka það. Er það það sem lífeyrissjóðirnir vilja, vilja þeir fara út í það að vera með allt sitt fé í gjaldeyrisviðskiptum? (Gripið fram í: Þeir hafa heimild og …) Þeir geta það ef þeir vilja og það er hægt að breyta því, en ég er ekki viss um að lífeyrissjóðirnir kæri sig um að gera það. Það var skoðað strax í haust en það virtist ekki vera neinn vilji til þess hjá lífeyrissjóðunum þó að ríkissjóður vildi það eða fyrrverandi ríkisstjórn og væntanlega sjálfsagt sú núverandi líka.

3. liður: „Samið verði við erlenda eigendur krónueigna.“

Menn hafa lagt til að þetta yrði gert en þeir hafa ekki haft neinn áhuga á því að semja við okkur um eitt eða neitt, íslensku þjóðina eða stjórnmálamenn eða ríkisstjórnina.

4. liður: „Settur verði á fót uppboðsmarkaður með krónur.“

Það er fljótandi gengi á Íslandi, hvað eru menn að tala um? Það er markaðsverð á krónunni, reyndar kannski ekki þessa dagana af því að hún er bæði með kút og kork og eitthvað fleira og svo alls konar hömlur á því að það fari fram frjáls viðskipti með krónuna. Menn verða aðeins að átta sig á hvað verið er að tala um í þessum tillögum.

5. liður: „Lokið verði við stofnun nýju bankanna fyrir 1. apríl 2009.“

Er ekki verið að vinna að því að reyna að klára það sem fyrst? (Gripið fram í: Í maí?) Ég sé ekki að þessar tillögur séu neitt annað en eitt stórt bull. Ég verð bara að viðurkenna að ég finn ekki flöt á því að sjá nein rök eða lausnir í þessum tillögum.

6. liður: „Kröfuhafar fái hlut í nýju bönkunum.“

Það er búið að bjóða þeim það og þeir hafa hafnað því, kæra sig ekkert um það.

7. liður: „Unnið verði að sameiningu og endurskipulagningu banka og fjármálastofnana.“

Hvað er verið að gera? Í hverju er Mats Josefsson, við hvað er hann að vinna? Er hann ekki að reyna að stofna og endurskipuleggja banka og taka fjármuni úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju? Ég sé ekki hvar lausnirnar í þessu eru.

8. liður: „Ríkið ábyrgist lán til skamms tíma á milli banka.“

Er verið ekki að reyna að gera þetta allt en gengur illa og hvar á ríkið að taka peninga?

9. liður: „Peningamagn í umferð verði aukið.“

Það á sem sagt að prenta meiri peninga sem þýðir meiri verðbólga. Er það lausn? Það getur vel verið að einhverjir haldi það og trúi því, ég hef heyrt hagfræðinga segja það en á móti hefur maður líka heyrt aðra hagfræðinga halda því fram að það sé arfavitlaus gjörningur að prenta bara peninga.

10. liður: „Veitt verði heimild til skráningar hlutafjár í erlendri mynt.“

Við breyttum lögum í haust og leyfðum fyrirtækjum að gera upp í erlendum gjaldmiðli þannig að þeir geta verið með hlutafé í öðrum gjaldmiðli líka, evrum eða dollurum eftir því sem þeim sýnist.

11. liður: „Gerð verði drög að fjárlögum til ársins 2012.“

Ég get ekki betur séð en að nógu erfitt hafi verið að gera síðustu fjárlög fyrir árið núna, hvað þá heldur að spá fram í tímann tvö eða þrjú ár. Ég sé því ekki hvaða lausnir liggja í þessu og hvað þetta hjálpar fjölskyldunum í landinu.

12. liður: „Komið verði á fót samráðsvettvangi með útflutningsfyrirtækjum og atvinnugreinum.“

Þetta er í gangi, það er samráð þarna á milli. Útflutningsfyrirtækin og atvinnugreinarnar — þetta er það sama. Útflutningsfyrirtækin eru að framleiða vörur til útflutnings og selja þær. Þetta er hreinlega bull, þetta er bara þvæla sem stendur hér á prenti. Maður skilur ekki hvað menn eru að fara með þessu.

13. liður: „Ríkið verði bakhjarl vegna fjármögnunar útflutnings.“

Það er ekki það sem þarf. Ef verið er að flytja út vörur fæst gjaldeyrir fyrir þær. Það þarf nánari skýringar á því hvað verið er að tala um, maður þarf raunverulega að fá túlk til að útskýra það betur sem stendur hérna, flesta af þessum liðum.

14. liður: „Stutt verði við rannsókna- og þróunarstarf.“

Er ekki verið að gera það? Er ekki verið að styðja við bakið á rannsóknum og þróunarstarfi? Ég veit ekki betur en að hæstv. iðnaðarráðherra hafi talað um það að ríkisstjórnin sé að styðja við ýmiss konar rannsókna- og þróunarstarf á mörgum sviðum. Ég spyr: Hvað er verið að tala um fyrir fjölskyldurnar í landinu í þessari upptalningu?

15. liður: „Fasteignamarkaðurinn verði örvaður.“

Það er nú kannski eitthvað sem þarf, að bæta við og halda áfram að byggja fleiri hús og íbúðir? Ég skil ekki hvað þetta hjálpar til. Jú, auðvitað ef einhverjir fá vinnu við það, en þegar vantar fólk í 3 þúsund íbúðir, á hvaða vegferð erum við?

16. liður: „Stimpilgjöld verði afnumin.“

Það kom fram frumvarp um það í haust frá Frjálslynda flokknum að leggja þau niður og það er búið að leggja þau niður að hluta, ríkisstjórnin gerði það, tímabundið reyndar.

17. liður: „Skattar verði lagðir á eignir erlendis.“

Hvaða bull er í gangi? Hvaða möguleika höfum við til að skattleggja eignir erlendis? Það er bara eins og þetta hafi verið gert á einhverju uppboði hjá börnum í barnaskóla, ég er efins um að þau létu sér detta svona vitleysu í hug.

18. liður, sem er kannski það vitlausasta sem í þessu plaggi stendur: „Skuldir verði felldar niður að hluta til bjargar skuldsettum heimilum og fyrirtækjum.“

20% er verið að tala um. Ég spyr: Hvað kosta þessar tillögur, hvað er verið að tala um? Það er ekki minnst á það einu einasta orði hvað þessar tillögur kosta þjóðina. Þegar við tökum peninga úr ríkissjóði og setjum þá í eitthvað þurfum við að vita hvað það kostar. Við þurfum að átta okkur á því hvernig á að borga það. Ef gera á svona barbabrellur þarf einhver að borga brúsann. Á að skattleggja almenning til að borga þessar skuldir eða þá peninga sem eiga að fara í þessar aðgerðir?

Nei, því er nú verr og miður, það verður bara að segjast eins og er, hér eru engar raunhæfar tillögur. Ekkert er talað um að nýta betur fiskimiðin okkar eða nýta orkuna í iðrum jarðar eða fallvötnin til að búa til útflutningstekjur. Þetta er kosningavíxill, þetta á að vera eitthvert kosningatrix. Það er verið að plata fólk eins og gert var sínum tíma, eins og framsóknarmenn gerðu á sínum tíma þegar talað var um að hækka lánshlutfallið hjá Íbúðalánasjóði upp í 90% og svo komu bankarnir og toppuðu Íbúðalánasjóð og fóru að lána 90–100% lán til íbúðakaupa. Ég segi bara: Varið ykkur á þessum trixum.