136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[19:47]
Horfa

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Grétari Mar Jónssyni fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Ég vil hins vegar segja það um ræðu hans hér áðan að ég hugsaði nú þegar leið á ræðuna hvort þetta væri ekki bara eitt allsherjargrín hjá hv. þingmanni. Það getur ekki verið að honum hafi verið full alvara með öllu því sem hann sagði. Þegar hann fór yfir þessa átján liði í tillögunni kom berlega í ljós að hv. þm. Grétar Mar Jónsson hefur ekki lesið greinargerðina sem fylgir. Hann skautaði samt sem áður í gegnum málið og skaut þetta allt niður alveg eins og hæstv. forsætisráðherra gerði, ég held að hún hafi ekki heldur lesið hvað stóð í þessum tillögum.

Ég ætla í mestu vinsemd að beina því til hv. þm. Grétars Mars Jónssonar (GMJ: Og forsætisráðherra.) — nei, ég er í andsvari við hv. þingmann — að hann lesi yfir þessa greinargerð og kynna sér málið áður en hann kemur upp í ræðustól með þeim bægslagangi sem hann gerði hér og stóryrðum. Það er miklu málefnalegra hv. þingmaður að taka þannig þátt í umræðu frekar en að vera með þennan bægslagang og þau gífuryrði sem fram komu í ræðu hv. þingmanns.

Hann skaut niður hvern einasta lið af þessum átján en ég saknaði þess að ekki var eitt einasta orð í ræðu hv. þingmanns um það hvaða lausnir Frjálslyndi flokkurinn hefur. Ekki aukatekið orð, ekki eitt. Kannski kemur það fram hér í svari við mínu andsvari.