136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[19:51]
Horfa

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta — ég biðst afsökunar á að segja það, virðulegi forseti — dapurleg framganga hér hjá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni. Hann hjakkar í sama farinu og í ræðu sinni með sama orðaflauminn og fer út um víðan völl og kemur ekki með neitt innlegg í þessa umræðu, ekki eitt orð um lausnir Frjálslynda flokksins, ekki eitt einasta orð. Það er dapurlegt, virðulegi forseti, vegna þess að hér er auðvitað tækifæri þar sem þessi umræða fer fram að koma nú með lausnirnar. Ekki bara að gagnrýna og skjóta niður það sem aðrir leggja til heldur koma með lausnir, hvaða tillögur viðkomandi hefur. En því er ekki fyrir að fara hjá hv. þingmanni Frjálslynda flokksins.

Þeir hafa tveir tekið hér til máls í dag í þessari umræðu, annar í stuttu andsvari og síðan hv. þm. Grétar Mar Jónsson. Það er allt á sömu bókina lært. Ég hvet hv. þingmenn Frjálslynda flokksins til að kynna sér betur það sem hér er til umræðu, lesa greinargerðina. Þar fást ýmis svör við því sem hv. þingmaður kallaði eftir. Og með því að lesa greinargerðina mun leiðréttast ýmislegt af þeim misskilningi og þeim rangfærslum sem fram komu í máli hans.