136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[19:55]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Herra forseti. Ég vildi að ég gæti þakkað hv. þingmönnum Frjálslynda flokksins fyrir innlegg þeirra hér í umræður um bráðavanda atvinnulífsins og heimilanna í landinu. Því að málflutningur hv. þm. Grétars Mars Jónssonar, og í raun og veru líka hv. þm. Karls. V. Matthíassonar, var ekki forsvaranlegur hér í þessari umræðu. Það er ekki málefnalegt að setja sig fyrir fram upp á móti átján tillögum sem helstu sérfræðingar í íslensku samfélagi hafa lagt til. Ég held að hv. þingmaður sé ekki að bæta stöðu Frjálslynda flokksins í samfélaginu með málflutningi sem þessum, og ekki er nú staða þess ágæta flokks bærileg fyrir.

Herra forseti. Við höfum fengið innlegg frá hv. þm. Pétri H. Blöndal, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hér í þessari umræðu, og eins og ég sagði áðan lýsi ég yfir mikilli ánægju með það að hæstv. fjármálaráðherra skuli vera kominn hingað til að ræða um vanda heimila og fyrirtækja. Ég á von á því að hann muni blanda sér í þessa umræðu og fyrir það vil ég þakka.

Umræða um efnahagsmál, stöðu heimila og fyrirtækja, á að vera umræða sem snertir alla stjórnmálaflokka. Nú stefnir í að allir stjórnmálaflokkar sem eiga seturétt hér á Alþingi muni leggja orð í belg um vanda heimila og fyrirtækja fyrir utan einn. Það er jafnaðarmannaflokkur Íslands, Samfylkingin, sem veitir minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna forustu.

Eftir síðustu kosningar hlaut Samfylkingin 18 þingmenn hér á Alþingi Íslendinga. Einn þingmaður hefur fallið frá borði og er genginn til liðs við Frjálslynda flokkinn og eftir eru 17 þingmenn Samfylkingarinnar. Nú spyr ég hvort það geti virkilega verið svo að allir 17 þingmenn Samfylkingarinnar hafi málefnalegar ástæður til þess að taka ekki þátt í þessari umræðu um vanda heimila og fyrirtækja. Getur það verið, herra forseti, að um eitthvert samráð sé að ræða hjá þingflokki Samfylkingarinnar? Sá flokkur hefur nú hingað til ekki verið hrifinn af samráði en mér sýnist allt benda til þess að slíkt hafi verið raunin. Ég vil ekki trúa því upp á þann flokk sem fer með stjórn efnahagsmála í landinu, sem fer með forsætisráðuneytið, að hann ætli að láta umræðu um stöðu heimila og fyrirtækja á þessu kvöldi lönd og leið. Maður veltir því fyrir sér hver afstaða Samfylkingarinnar sé til þeirra átján tillagna sem þingflokkur Framsóknarflokksins hefur lagt hér fram.

Mér dettur reyndar ekki í hug, herra forseti, að afstaða Samfylkingarinnar til þeirra átján tillagna sem við höfum lagt hér fram verði með þeim hætti sem þingmenn Frjálslynda flokksins hafa lagt hér til í dag, að vera fyrir fram á móti þeim öllum, tala um að það séu kosningavíxlar og einhver ódýr trix, því að þessar átján tillögur eru lagðar fram af fullum heilindum. Við höfum sagt: Þær eru ekki hafnar yfir gagnrýni. Við þurfum ekki að vera sammála um allt. En við hljótum að geta sammælst um það að fara í frekari aðgerðir, meiri aðgerðir en ríkisstjórnin hefur lagt til. Því það er þannig að það er Alþingi Íslendinga sem hefur valdið. Það er Alþingi Íslendinga sem á á erfiðum tímum að beita sér fyrir róttækum aðgerðum til þess að leysa úr þeim bráðavanda sem steðjar að íslensku efnahagslífi.

Það er því lágmarkskrafa, herra forseti, að fulltrúar Samfylkingarinnar komi hér á þessu kvöldi í umræðu um stöðu heimila og fyrirtækja. Eða getur það verið að 17 manna þingflokkur Samfylkingarinnar hafi ekki áhuga á því að ræða þá tillögu sem við ræðum hér um vanda heimila og fyrirtækja í landinu? Ég vil ekki trúa því.

Hæstv. forseti. Ég hvet hv. þingmenn Samfylkingarinnar, sem vafalaust eru flestir á skrifstofum sínum að fylgjast með þessari umræðu, til að koma hér til umræðunnar í þingsal um leið og ég þakka hv. þingmönnum Vinstri grænna sem eru hér í þessum sal og reyndar hafa nú verið umræður að undanförnu um það að þessir flokkar eigi nú orðið mátulega vel saman málefnalega. Við getum tekist á í ýmsum málum þó að við séum ekki sammála. En það er mjög erfitt að eiga í samstarfi við stjórnmálaflokk sem neitar að koma til umræðu líkt og Samfylkingin hefur gert.