136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[20:00]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Af fullum heilindum, segir hv. þm. Birkir Jón Jónsson, af fullum heilindum lögðum við fram frumvarp um Íbúðalánasjóðinn á sínum tíma. (Gripið fram í.) Af fullum heimildum lögðuð þið fram og hafið stutt kvótakerfi í íslenskum sjávarútvegi í 25 ár.

(Forseti (KHG): Forseti vill brýna fyrir þingmönnum að ávarpa forseta eða fundinn en ekki aðra þingmenn.)

Ég biðst afsökunar á þessu, hæstv. forseti. Ég segi enn og aftur: Af fullum heilindum hafa framsóknarmenn í gegnum tíðina staðið að ýmsum gjörningum sem hafa ekki orðið til góðs fyrir íslenskt þjóðfélag. Svo mikið er víst.

Þrátt fyrir að þeir leggi hér fram þingsályktunartillögu sem á að vera til að hjálpa heimilunum og fyrirtækjunum í landinu get ég ekki séð hvar hjálpin er. Án þess að geta sagt hvað þetta kostar, hvað þarf að borga og hvernig á að borga þetta get ég ekki sagt og samþykkt að þetta sé lausn á einu eða neinu. Við horfum fram á kosningavíxla, við horfum fram á ómerkilegt pólitískt trix til að reyna að fá til fylgis við sig fólk sem er kannski ekki of mikið inni í málunum og er kannski ekki of mikið að velta sér upp úr neinu, heldur vill í góðri meiningu trúa því að stjórnmálamenn leggi fram tillögur sem eru til bóta. Þegar grannt er skoðað og farið í gegnum þessar tillögur hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar og flokksfélaga hans eru engar lausnir þar fyrir heimilin nema síður væri og jafnvel að þetta yrði þjóðinni baggi í framtíðinni.