136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[20:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Um þessa tillögu vil ég segja að þetta er ágæt upptalning á ýmsum atriðum sem öll eru umræðuverð og snúa að mögulegum aðgerðum til að aðstoða heimili og atvinnulíf. Má kalla þetta ágætan minnislista um ýmislegt sem er að sjálfsögðu á dagskrá í þeim efnum. Flest ef ekki allt af þessu er með einum eða öðrum hætti í farvegi og margt af þessu liggur nú þegar fyrir Alþingi eða kemur inn á mál sem hér hafa verið lögð fram og eru til umfjöllunar í þingnefndum. Ég held að ég geri skást í að hlaupa aðeins yfir nokkra liði þessarar tillögu og lýsa viðhorfum mínum til þeirra ef þingmönnum finnst einhver akkur í því. Ég set þau þá í samhengi við þær aðgerðir sem í gangi eru eða stöðu mála eins og hún kemur mér fyrir sjónir.

Í 1. tölulið er talað um að vextir verði lækkaðir í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, eins og stendur þar. Samkvæmt lögum, þar á meðal nýsamþykktum lögum héðan frá Alþingi, eru það Seðlabankinn og peningastefnunefnd Seðlabankans sem taka ákvarðanir um stýrivexti sem aftur er ætlað að hafa áhrif á vaxtastigið almennt. Það vald verður ekki frá þessum aðila tekið nema með lögum þannig að Alþingi getur að sjálfsögðu ekki mælt fyrir um vaxtalækkun en það getur haft á því skoðun ef það vill og lýst henni.

Það liggur alveg fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnvalda og ég hef sem fjármálaráðherra m.a. hér úr þessum ræðustóli lýst því sem algjöru forgangsverkefni af okkar hálfu að vextir verði lækkaðir. Ég tók af allan vafa um að það væri í forgangi af okkar hálfu að lækka vexti fremur en að létta á gjaldeyristakmörkunum. Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er vel kunnugt um þau mál. Á þremur, ef ekki fjórum, löngum fundum sem ég átti með fulltrúum hans hér bar vaxtamál á góma. Í öllum tilvikum kom ég því skýrt á framfæri að við legðum mikla áherslu á að vextir færu að lækka, allar forsendur væru til staðar og það væri almennt ákall úr atvinnulífinu og viðskiptalífinu að vaxtalækkunarferli færi af stað. Ég vænti þess að við þurfum ekki að bíða lengur en til fimmtudags að fyrstu jákvæðu fréttirnar komi í þeim efnum. Ég endurtek þó að það er í valdi Seðlabankans, það er hann sem tekur þær ákvarðanir og ber ábyrgð á þeim.

Í öðru lagi er lagt til að lífeyrissjóðum verði veittar heimildir til gjaldeyrisviðskipta. Um það hef ég nokkrar efasemdir. Ég er ekki viss um að það samrýmist vel lögum og hlutverki lífeyrissjóða sem fyrst og fremst er að taka á móti lífeyrissparnaði og ávaxta hann að þeir gerist í þessum skilningi fjármálafyrirtæki eða bankar. Hitt er annað að ég held að það sé æskilegt að þeim aðilum fjölgi sem taka virkan þátt á millibankamarkaði með gjaldeyri. Ég veit um áhuga sjálfstæðra fjármálafyrirtækja á að slík þróun verði og það yrði að sjálfsögðu til góðs að þátttakendum þar fjölgaði og markaðurinn dýpkaði.

Í þriðja lagi er lagt til að samið verði við erlenda eigendur krónubréfa. Ýmsar viðræður hafa verið í gangi um það mál og ýmsar hugmyndir uppi á borðum í þeim efnum sem ég hef áður gert grein fyrir. Seðlabankinn er að skoða þau mál og þau eru í hans höndum en við fylgjumst auðvitað grannt með því, m.a. í fjármálaráðuneytinu. Seðlabankinn telur að sjálfsögðu, þótt hann tali sjálfur fyrir sig, að æskilegt væri að slíkt gæti gerst á viðskiptalegum forsendum þannig að þar gætu orðið viðskipti milli aðila sem þjónuðu þeim tilgangi að festa sem kostur er það lausa fé sem hér er eftir í hagkerfinu þannig að erlendir aðilar tækju stöðu með hagkerfinu í staðinn fyrir að bíða eftir því að fara með sitt fé út.

Það er lagt til í 5. lið að lokið verði við stofnun nýju bankanna fyrir 1. apríl. Það er auðvitað búið að stofna nýju bankana en það sem þá vantar er efnahagsreikningur. Það hefur kannski ekki komið eins mikið að sök og maður áður taldi, einfaldlega vegna þess að Seðlabankinn hefur m.a. veitt þeim fyrirgreiðslu þannig að þeir gætu stundað viðskipti og þeir eru ekki í vandræðum með laust fé. En að sjálfsögðu er mikilvægur liður í að ljúka stofnun þeirra og koma þeim endanlega á fót að þeir fái efnahagsreikning sem nú styttist sem betur fer í. Ég held að það sé ekki raunhæft að hægt verði að standa við þessa dagsetningu en vonandi dregst ekki margar vikur í viðbót að þeir fái efnahagsreikning, að sú endurskoðun á honum sem gert er ráð fyrir hafi farið fram af yfirskoðunarfyrirtækinu og þá er ekkert að vanbúnaði að gefa út þau skuldabréf sem frá ríkinu ganga til að mynda eigið fé nýju bankanna.

Í sjötta lagi er að kröfuhafar fái hlut í nýju bönkunum. Það er að sjálfsögðu til skoðunar og er í viðræðum milli aðila. Þeim viðræðum veitir núna forustu fyrir hönd ríkisins Þorsteinn Þorsteinsson hagfræðingur og með honum til aðstoðar er hið margrómaða ráðgjafarfyrirtæki Hawkpoint þannig að ríkisstjórnin er búin að koma þeim málum í traustan farveg að ég tel og þar er unnið hörðum höndum að því að fá þessa hluti sem mest á hreint. Uppi hafa verið hugmyndir um að kröfuhafar gætu gerst eigendur að a.m.k. einum bankanna og þar hefur verið sýndur viss áhugi. Staðan er þó ólík í öllum þremur tilvikum, um ólíka aðila að ræða sem aðallega eiga kröfur á bankana og ekki víst að það sé raunhæfur kostur nema þá mögulega í einu, hugsanlega tveimur tilvikum.

Ég hleyp aðeins yfir tímans vegna. Í 11. tölulið er talað um að gerð yrðu drög að fjárlögum til ársins 2012. Í raun liggja slík drög fyrir í rammafjárlögum sem hafa fylgt fjárlagafrumvörpum, ég held í tvö síðustu skipti. Það er unnið að nákvæmlega slíku samkvæmt áætlun stjórnvalda í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þ.e. þó að áætlunin sem slík taki til áranna 2009 og 2010 er jafnframt gerð áætlun til svokallaðs meðallangs tíma og hún tekur einmitt til áranna 2011, 2012 og jafnvel 2013. Slík áætlun er í raun og veru hluti af samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og verður m.a. eitt af því sem þar verður skoðað þegar stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tekur fyrir endurskoðunarskýrsluna frá því nú á dögunum.

Í 13. tölulið er talað um að ríkið verði bakhjarl vegna fjármögnunar útflutnings. Það er að sjálfsögðu fyrirkomulag og hugmynd sem vel getur komið til greina en kallar þá á að stofnaður verði væntanlega einhvers konar útflutningsábyrgðarsjóður. Slík fyrirbæri hafa áður í okkar sögu verið til í mýflugumynd. Aðrar þjóðir hafa gert þetta með skipulagðari hætti, verið með einhvers konar export-kredit-sjóði sem ábyrgjast útflutning í tilteknum tilvikum. Það er að vísu sjaldan þannig að þeir starfi samkvæmt einhverjum almennum reglum, heldur er þá oftast um einhvers konar sértækar ábyrgðir að ræða bundnar við atvinnugreinar eða svið. Slíkt fyrirkomulag mætti að sjálfsögðu hugsa sér og oftast hafa menn þá verið með útflutning á t.d. tæknivörum eða nýsköpunarvörum til að auðvelda slíkum vörum að komast á markað eða í afmörkuðum tilvikum eins og í skipaiðnaði og annars staðar þar sem sérstakar aðstæður eru til staðar.

Að stutt verði við rannsókna- og þróunarstarf — að sjálfsögðu væri æskilegt að geta gert það myndarlegar en þó er gert eða verður mögulegt á næstunni í ljósi þröngrar stöðu ríkisfjármála en það er þó í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til að örva atvinnulífið eða komið inn á það að reyna að örva nýsköpun með því að beita tilteknum skattalögum til hvatningaraðgerða.

Stimpilgjöld er búið að afnema að hluta og auðvitað gæti verið leið að ganga þar alla leið en þá hverfa einhverjar tekjur af þeim sökum.

Í 17. tölulið — að skattar verði lagðir á eignir erlendis — það vill svo vel til að fyrir þinginu liggur og er í þingnefnd frumvarp um að hluta til þetta, þ.e. að taka hér upp löngu tímabærar svokallaðar CFC-reglur, þ.e. möguleikana á að skattleggja móðurfyrirtæki í skattalandinu, heimalandinu, vegna starfsemi dótturfélaga, t.d. á aflandssvæðum. Það má spyrja: Hvers vegna í ósköpunum var ekki búið að grípa til slíkra ráða fyrir löngu, þar á meðal t.d. meðan flokkur hv. þingmanns var í ríkisstjórn? Það var ekki gert og það þurfti þessa nýju ríkisstjórn og nýjan húsbónda í fjármálaráðuneytinu til að koma þessum hlutum á hreyfingu. Nú er fyrir þinginu mjög mikilvægt frumvarp, satt best að segja, um slík úrræði í skattamálum að styrkja stöðu skattyfirvalda, gera skattlagningu mögulega á starfsemi á aflandssvæðum og taka upp svokallaðan afdráttarskatt á vaxtagreiðslur sem fara úr landi. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: … fjármálaráðherra?) Nei, en hann hefur kannski getað haft einhver góð áhrif á samstarfsaðila sína. Alltént sat þetta allt saman fast í fjármálaráðuneytinu, svo undarlegt sem það var.

Að lokum er talað um að fella að hluta niður skuldir til að bjarga skuldsettum heimilum og fyrirtækjum. Ef hér er verið að tala um þá 20% flötu niðurfellingu allra skulda heimila og fyrirtækja sem Framsóknarflokkurinn hefur teflt fram verð ég að ítreka að ég mæli ekki með þeirri aðgerð. Lauslegt mat okkar í fjármálaráðuneytinu bendir til að slíkt mundi kosta um 1.200 milljarða kr. og eru þá ekki talin með dótturfélög íslenskra fyrirtækja sem kannski yrði að lækka skuldirnar hjá af jafnræðisástæðum. Með þeirri niðurfellingu yrði reikningurinn enn þá hærri. Þetta mundi færa niður eigið fé Íbúðalánasjóðs um 110–120 milljarða, kosta lífeyrissjóði 30–40 milljarða þar sem sannanlega engar afskriftir hafa átt sér stað. Hvaða áhrif þetta hefði á eigin fjárhag nýju ríkisbankanna skal ósagt látið. Gögn Seðlabankans sem nú liggja fyrir benda eindregið í gagnstæða átt og mér er ómögulegt að skilja að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi mælt með slíkum aðferðum vegna þess að á löngum og ströngum fundum mátti ég eyða mikilli orku í að sannfæra Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (Forseti hringir.) um að þær ráðstafanir sem núverandi ríkisstjórn er að grípa til, (Forseti hringir.) t.d. í greiðsluaðlögunarjöfnun, væru nógu hnitmiðaðar og markvissar og beindust nógu (Forseti hringir.) nákvæmlega að þeim sem þurfa á stuðningi að halda (Forseti hringir.) til þess að þær væru réttlætanlegar.