136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[20:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég var að kynna í dag ný gögn eða samantekin gögn um íslenskan þjóðarbúskap og ríkisfjármál og ég hvet hv. þingmenn, og kannski ekki síst Framsóknarflokksins, til að glugga í þau. Ég held að þau segi okkur heilmikið um þá stöðu sem íslenskur þjóðarbúskapur og íslensk ríkisfjármál eru og verða í á næstunni. Þar er þröngur stakkur skorinn. Það er algerlega augljóst mál að við þurfum að miða allar okkar aðgerðir með mjög hnitmiðuðum og markvissum hætti að því að styðja þá sem mest þurfa á stuðningi að halda og ekki gefa hinum fé sem ekki þurfa á því að halda.

Ég get tekið sem dæmi ágætan kunningja minn hér í þingmannahópnum sem er vel giftur og bæði hann og makinn í góðri vinnu og ráða prýðilega við afborganir af sínum lánum. Þau skulda um 15 milljónir í sínu 50 millj. kr. húsi. Er ástæða til með flatri niðurfellingu skulda heimila að þau fái 3 millj. kr. gjöf á kostnað barnanna okkar, því að einhver mun borga þennan reikning að uppistöðu til? Það er mikill misskilningur að hægt sé að láta skuldir hverfa með einhverjum töfrakúnstum, slíkt gerist yfirleitt ekki. Hægt er að færa þær til en þær munu, því miður, fyrst og fremst færast á okkur sjálf, á okkar sameiginlegu sjóði, á ríkissjóð, á Íbúðalánasjóðinn okkar og á lífeyrissjóðina okkar. Það er skammgóður vermir að fara út í slíkt.

Ég verð að minna hv. þingmann á að umtalsverður hluti útlána til heimilanna, tæpir 600 milljarðar hjá Íbúðalánasjóði og um 150–170 milljarðar hjá lífeyrissjóðunum eru íbúðalán til heimila, fasteignaveðlán. Niðurskrift á þessum stóra lánastabba hjá þessum opinberu og hálfopinberu aðilum verður náttúrlega beint á þeirra kostnað. Það er óumflýjanlegt hvað sem segja má um þessar æfingar í sambandi við það að hægt sé að færa þetta niður í nýju bönkunum, sem er auðvitað ekki eins einfalt og það er látið líta út fyrir að vera af ýmsum, þar á meðal hagfræðilærðum mönnum. Það er náttúrlega ekki þannig. (Forseti hringir.) Enda voru niðurskriftir á fasteignaveðlánum auðvitað miklu lægri en á ýmsum öðrum lánasöfnum þegar fært var á milli bankanna.