136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[20:24]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst ég þurfa að fá skýrari svör frá hæstv. fjármálaráðherra við þeirri spurningu minni: Ef lánasöfnin sem nýju bankarnir fengu eru með þeim afslætti sem formenn skilanefnda bankanna hafa talað um, 50%, er þá ekki rétt að eignasafnið fari úr 6.000 milljörðum niður í 3.000 milljarða, og eins þegar hæstv. ráðherra talaði um hér áðan að aðgerð okkar framsóknarmanna mundi kosta 1.200 milljarða þá kosti hún 600 milljarða? Það er mikilvægt að fá svör við þessu.

Hæstv. ráðherra talar um að verið sé að færa heimilunum gjöf. Síður en svo. Það er verið að færa stöðu lána íslenskra heimila til samræmis við verðbólgu síðustu 18 eða 20 mánuði. Fólk sem gerði áætlanir þá um það hvernig það ætlaði að standa undir skuldbindingum sínum sá ekki fram á að sú óðaverðbólga sem hefur geisað mundi verða raunin. Ekki er verið að gefa neinum eitt eða neitt en ég vil minna hæstv. ráðherra á að það er mikið tekjufall í íslensku samfélagi og það er mikið atvinnuleysi undirliggjandi.

Hæstv. ráðherra talaði um að hann hefði flutt skýrslu um stöðu þjóðarbúsins í dag. Ég hafði ekki tök á að kynna mér hana, enda hef ég verið upptekinn við skyldustörf á Alþingi í dag. Mér hefði þótt tilhlýðilegt að hæstv. ráðherrar hefðu flutt Alþingi Íslendinga skýrslu um stöðu þjóðarbúsins á þessum tímum þannig að við hefðum heyrt það, hv. þingmenn, á vettvangi Alþingis hver staða þjóðarbúsins er en ekki í fjölmiðlum. Þegar hæstv. ráðherra kemur hér upp og segir að ég hefði átt að vera búinn að kynna mér þetta hefði ég viljað fá að heyra það héðan úr ræðustóli Alþingis hver staða þjóðarbúsins er. Við komum hér upp dag eftir dag og spyrjum spurninga og við eigum ekki að þurfa að hlusta á það í fjölmiðlum hver staða þjóðarbúsins er. (Forseti hringir.) Hæstv. ráðherra á að sjálfsögðu að sýna þinginu þá virðingu að gefa okkur slíka skýrslu fyrst þannig að við þurfum ekki að hlusta á slíkt í fjölmiðlum.