136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[20:33]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra um liði sem hann hefði sleppt. Það væri ágætt að fá þá inn í umræðuna og af hverju hann kýs að sleppa þeim.

Hæstv. fjármálaráðherra upplýsti hér að 20% niðurskurður á skuldum heimila og fyrirtækja væru 1.200 milljarðar. Það verður að svara því í þessu máli. Hvernig á að borga þessa 1.200 milljarða? Hver á að gera það? Á að skattleggja fyrir þessu? Á að hækka skatta, tekjuskatt, til að ná þessu niður? Eða hvernig ætla menn sér að fara út úr þessu?

Það er ekkert skrýtið þó að framsóknarmenn séu sárir yfir því þegar spurt er hvað þessar tillögur kosti. Þeir eru með hugmyndir um það og trúa því að þessar tillögur kosti ekki nema 600 milljarða. (Gripið fram í: Hvað kosta þínar?) Mínar tillögur kosta ekki minna en þetta sjálfsagt ef þær væru allar teknar í heilu lagi en hafa verður í huga að þar er ekki gert ráð fyrir því að fella niður skuldir af öllum. Ekki er gert ráð fyrir því að fella niður skuldir af þeim sem skuldar eina milljón, fella þær niður um 20%. Það er verið að tala um að vinna þannig í málunum að þeir sem eiga undir högg að sækja, og eiga í erfiðleikum með að borga skuldir sínar, verði réttir af eða þeim hjálpað en ekki þeim sem ekki þurfa það. (Gripið fram í: Festa vísitöluna.) — Festa vísitöluna, það má frysta hana. Við gerum ráð fyrir því í tillögum okkar að hún sé fryst frá 1. janúar en það má þess vegna fara með það aftur til 1. september á síðasta ári og stokka hlutina upp með þeim hætti. Það eru heiðarlegri vinnubrögð og eðlilegri.