136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs.

419. mál
[20:52]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er að verða nóg komið af umræðu um þessa þingsályktunartillögu og andsvörum við hæstv. iðnaðar- og utanríkisráðherra.

Það er engin spurning að við erum sammála um að 18. liðurinn í þessari þingsályktunartillögu sem gengur út á 20% niðurskurð er barbabrella og kosningavíxill. Þetta er með svipuðum hætti og Íbúðalánasjóður gerði, Framsóknarflokkurinn var með tillögu um 80% lán úr Íbúðalánasjóði sem bankarnir toppuðu síðan með 90–100% lánum. Þetta var fyrir kosningar, Framsóknarflokkurinn fékk á sínum tíma fylgi út á þennan gjörning og mér sýnist (Gripið fram í.) enn og aftur sem framsóknarmenn ætli að slá ryki í augun á fólki og ná sér í fylgi út á svona blekkingar.

Ég minni hv. þm. Birki Jón Jónsson á að —

(Forseti (KHG): Forseti vill minna ræðumann á að hann er í andsvari við hæstv. utanríkisráðherra.)

Já, en ég sit undir því að það eru frammíköll frá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni og þar af leiðandi tel ég allt í lagi að nefna hann á nafn þó að ég sé í andsvörum við hæstv. iðnaðar- og utanríkisráðherra.

Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til lausnir í þessu málum. Við höfum lagt til (Gripið fram í.) auknar fiskveiðar til að komast út úr þessari kreppu sem við erum í. Enn og aftur út af þessari þingsályktunartillögu tel ég þetta sýndarmennsku og alls ekki til að þjóna hagsmunum þjóðarinnar að boða 20% niðurskurð á skuldum.