136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

[13:32]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég hef nokkrum sinnum á þessu þingi komið upp og spurst fyrir um þá ályktun mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um að borga ætti tveimur sjómönnum bætur fyrir að á þeim hefðu verið framin mannréttindabrot og að aðrir hafi verið sviptir atvinnufrelsi og annað í þeim dúr. Nú eru liðnir 14 eða 15 mánuðir síðan mannréttindanefndin sendi ályktunina frá sér og þess vegna spyr ég hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem fer með þetta mál fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, hvað málinu líði, hvort ekki eigi að ganga til samninga við þessa ágætu menn og ég trúi ekki öðru en við gerum það. Það er ekki stórt mál og ekki erfitt fyrir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að semja við hæstv. fjármálaráðherra um að ganga til verksins og borga þessum ágætu sjómönnum bætur, sem ég tel að sé mjög eðlilegt að verði gert. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að þessir menn eiga heiður skilinn fyrir að hafa farið alla leið með þetta og fengið úrskurð. Þetta segir okkur að íslenskt fiskveiðistjórnarkerfi stenst ekki álit mannréttindanefndarinnar og þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað er verið að vinna í þessum málum við að leiðrétta þetta og stendur ekki til að borga þessum ágætu mönnum bætur?