136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

[13:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Álit mannréttindanefndarinnar er vel þekkt sem og viðbrögð fyrrverandi ríkisstjórnar við því, viðbrögð sem við í mínum flokki vorum ekki alls kostar sátt við. Við lögðum talsverða vinnu í það á sínum tíma að skoða álitið og sömdum ítarlega greinargerð, sem ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður viti af, þar sem við fórum rækilega yfir það mál. Afstaða okkar var sú að íslensk stjórnvöld hefðu átt að svara með efnislegri hætti en gert var á sínum tíma og fara í efnislegar rökræður við mannréttindanefndina á ítarlegri nótum en viðbrögð þáverandi ríkisstjórnar buðu upp á.

Af málinu er síðan ekki annað að frétta en það að einhver bréf gengu á milli íslenskra stjórnvalda og mannréttindanefndarinnar í tíð fyrri ríkisstjórnar. Rétt í kringum stjórnarskiptin fór bréf til mannréttindanefndarinnar þar sem aðstæður hér voru útskýrðar og rakið hvað á daga Íslendinga hefði drifið frá haustmánuðum, bæði í efnahagslegu tilliti og sömuleiðis upplýst um að stjórnarskipti væru orðin eða væru að verða og nefndin var einfaldlega beðin um að sýna aðstæðunum skilning og því að íslensk stjórnvöld hefðu haft um ýmislegt annað að hugsa og þar með hefði ekki verið mikið unnið í málinu. Það er staðan eins og hún var og í sjálfu sér er. Þetta mál hefur því miður ekki verið efst á lista heldur orðið að víkja fyrir öðrum og kannski brýnni verkefnum sem hafa tengst baráttunni við efnahags- og atvinnumálin og stöðu heimila og fyrirtækja og þar fram eftir götunum. Ég gef hreinskilið svar hvað það varðar að sjálfur hef ég ekki haft aðstöðu til þess að setja mig rækilega inn í málið en það er á verkefnalista mínum og ég mun reyna að koma því að og skoða það með öðrum verkum á næstunni.