136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

vegaframkvæmdir í Mýrdal.

[13:57]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. samgönguráðherra og vil ræða við hann um vegalagningu í Mýrdalnum, svæði sem ég er farin að hafa meiri áhuga á eftir því sem dagarnir líða. Það eru skiptar skoðanir á svæðinu um framtíðarlagningu hringvegarins þar um og deilur hafa sett svip sinn á mannlífið í annars friðsælli sveit vegna þessa máls um nokkurra ára skeið. Þar togast á tvö sjónarmið. Það var vilji fyrir því í stjórnkerfi Mýrdalshrepps að hringvegurinn yrði færður af núverandi stað og lagður í göngum undir Reynisfjall og meðfram Víkurfjöru. Það var þó engin samstaða um málið og bændur og aðrir landeigendur í Reynishverfi, Dyrhólahverfi og fleiri vildu að núverandi vegarstæði yrði haldið og að vegurinn yrði lagfærður.

Þessu tengist líka að skiptar skoðanir eru varðandi umhverfismál og svo koma öryggismálin hinum megin frá. Skipulagsnefnd vill leggja hringveginn um Víkurfjöru, í jarðgöngum, um tún og mýrar á mörkum náttúruverndarsvæðis alveg niður við sjóinn og Vegagerðin telur að sú leið kunni að kosta í kringum 3 milljarða. Með jarðgöngum verður talan enn þá hærri. Hin leiðin hefur verið talin kosta samkvæmt áætlun Vegagerðarinnar í kringum milljarð. Nýr vegur er hins vegar ekki á samgönguáætlun og engin vilyrði hafa verið gefin um framkvæmdina. Mér leikur forvitni á að vita og heyra frá hæstv. samgönguráðherra hvort hann hafi tekið afstöðu til þessa máls sem er viðkvæmt þar í sveit og þá hver afstaða hans sé, hvar málið standi hjá Vegagerðinni og hvort þess er að vænta að Vegagerðin geti leyst þennan hnút á einhvern hátt.