136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

meðferð fyrirtækja á vegum ríkisbankanna.

333. mál
[14:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. CreditInfo á Íslandi birti fyrir nokkru spá sína um að allt að 3.500 fyrirtæki gætu lent í örðugleikum eða gjaldþroti á næstu vikum og mánuðum. Um tíu fyrirtæki dag hvern næstu tólf mánuði.

Þetta eru ótrúlegar tölur miðað við að 748 fyrirtæki urðu gjaldþrota í fyrra og var þar þó um nýtt met að ræða frá því að mælingar hófust árið 1990. Hvað rauntölur varðar voru 70 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta nú í janúar samanborið við 41 fyrirtæki í janúar 2008. Það jafngildir 71% aukningu á milli ára. Flest gjaldþrotin eru í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum.

Staðan er því mjög alvarleg, sérstaklega í ljósi þess að nú eru rúmlega 17.000 manns á atvinnuleysisskrá og áfram bætist við þá tölu ef fjöldi fyrirtækja verður gjaldþrota.

Lykilaðilar í að fjármagna rekstur fyrirtækja hér á landi eru ríkisbankarnir. Þeir hafa í hendi sinni fjöregg íslensku þjóðarinnar, sjálft atvinnulífið, og því skiptir miklu að vita hversu hart bankarnir ganga fram í því að krefjast gjaldþrotaskipta fyrirtækja. Sterkur orðrómur er þess efnis að bankarnir séu farnir að ganga æ harðar fram og að ný fyrirtæki hrúgist inn á fyrirtækjasölur á vegum bankanna.

Sem dæmi má nefna að ég hef í höndum tölvupóstssamskipti ríkisbanka við iðnaðarfyrirtæki þar sem starfsmenn bankans bjóða eigendum að bankinn mun greiða kostnað við gjaldþrotabeiðni ef eigandinn er tilbúinn að lýsa fyrirtækið gjaldþrota. Allt til að flýta ferlinu og auðvelda málin, væntanlega fyrir bankann.

Í öðrum tilvikum heyrum við fréttir þar sem nýir eigendur fá afskrifaða fleiri milljarða kr. skuldir líkt og í tilviki útgáfufélags Morgunblaðsins . Í einhverjum tilvikum virðist eignum gjaldþrotafélaga hafi verið ráðstafað aftur til fyrri eigenda eins og í tilviki Next og Noa Noa og Humac á Norðurlöndunum.

Því ber ég fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um meðferð fyrirtækja á vegum ríkisbankanna: Hversu mörg fyrirtæki hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta að beiðni nýju bankanna, sundurliðað eftir bönkum? Hver er heildarupphæð afskrifaðra skulda fyrirtækja hjá nýju bönkunum, sundurliðað eftir bönkum? Í hversu mörgum tilvikum hefur eignum fyrirtækja verið ráðstafað aftur til fyrri eigenda eða tengdra aðila?