136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

meðferð fyrirtækja á vegum ríkisbankanna.

333. mál
[14:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Aflað var upplýsinga til að svara þessari fyrirspurn frá bönkunum og er hér byggt á því sem þaðan barst. Í fyrsta lagi er spurt: Hve mörg fyrirtæki hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta að beiðni nýju bankanna, sundurliðað eftir bönkum?

Því er til að svara að Íslandsbanki hefur óskað eftir því að bú þriggja félaga verði tekin til gjaldþrotaskipta frá því að bankinn tók við eignum úr hendi Glitnis banka þann 14. október síðastliðinn. Nýi Kaupþing banki hf. hefur sent eina gjaldþrotabeiðni vegna gjaldþrots fyrirtækja en ekkert félag hefur verið úrskurðað gjaldþrota að beiðni Landsbankans. Þann 12. mars var áætluð fyrirtaka um gjaldþrotaskipti á hendur einu félagi en svar barst frá Landsbankanum daginn áður, þann 11. mars.

Vert er að taka fram að í flestum tilvikum óska stjórnir fyrirtækja sjálfar eftir gjaldþrotaskiptum ef ekki semst um uppgjör á kröfum enda er þeim skylt að gera það lögum samkvæmt eins og kunnugt er.

Í öðru lagi er spurt: Hver er heildarupphæð afskrifaðra skulda fyrirtækja hjá nýju bönkunum, sundurliðað eftir bönkum? Íslandsbanki hefur ekki samþykkt endanlega afskrift neinna útlána frá því að bankinn tók við eignum úr hendi Glitnis þann 14. október síðastliðinn. Engin lán bankans verða afskrifuð endanlega fyrr en í fyrsta lagi eftir að verðmat á þeim eignum sem fluttar voru frá Glitni banka yfir í Íslandsbanka og stofnefnahagsreikningur Íslandsbanka liggur fyrir.

Sama gildir um nýja Kaupþing. Hins vegar hefur bankaráð Landsbankans samþykkt að afskrifa útlán til fyrirtækja að fjárhæð kr. 1.772.311.655 kr. miðað við síðustu áramót.

Í þriðja lagi er spurt: Í hversu mörgum tilvikum hefur eignum fyrirtækja verið ráðstafað aftur til fyrri eigenda eða tengdra aðila? Ekkert tilvik þess efnis er um að ræða hjá Íslandsbanka hf. Einstök uppgjörsmál eru ekki komin á það stig að hægt sé að tala um endanlega úrlausn þessara mála og ráðstafanir til fyrri eigenda eða annarra eigenda hjá nýja Kaupþingi. Bankinn mun vinna eftir nýlega samþykktum reglum varðandi úrlausn útlánavandamála fyrirtækja þegar til þess kemur.

Hjá Landsbankanum hefur eignum fyrirtækja ekki verið úthlutað til fyrri eigenda eða tengdra aðila. Hins vegar hefur í nokkrum tilvikum verið samið við hluthafa um að leggja fyrirtækjum til nýtt hlutafé og frysta afborganir lána. Er við það miðað að nýtt hlutafé sé í eðlilegu samræmi við fjárhæð þeirra skulda sem breytt er í hlutafé. Þessar aðgerðir eru í samræmi við stefnu Landsbankans um aðgerðir vegna greiðsluerfiðleika fyrirtækja.

Loks vildi Landsbankinn vekja athygli á því að ráðstöfun eigna eftir gjaldþrot er að sjálfsögðu ekki á hendi bankans heldur þess bústjóra eða skiptaráðanda sem skipaður er lögum samkvæmt.