136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

meðferð fyrirtækja á vegum ríkisbankanna.

333. mál
[14:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín hefur kannski ekki verið nægjanlega skýrt orðuð. Ég hefði kannski átt að spyrja nákvæmlega um þau bú sem tengjast viðkomandi bönkum og hafa farið í hendur skiptastjóra. Það eru alla vega þessi tvö dæmi sem ég nefndi í ræðu minni. Fram kemur Landsbankinn hafi keypt lagerverslun Next og Noa Noa og hún var síðan seld til fyrirtækis sem heiti Arev N1 og gátu fyrrum eigendur síðan keypt verslanirnar aftur. Mér skilst að það hafi verið eitthvað svipað ferli varðandi Humac en það er spurning hvort bankinn hafi ekki verið orðinn „nýr“ í því tilviki af því þetta var svo snemma í ferlinu.

En þetta er hins vegar mikið áhyggjuefni því að þrátt fyrir þær tölur sem koma fram í svari hæstv. fjármálaráðherra er mjög greinilegt af þeim tölvupóstum og fyrirspurnum að dæma sem þingmönnum berast og í gegnum þær upplýsingar sem ég hef síðan aflað mér beint frá fyrirtækjasölum, að það er eitthvað mikið að gerast í málum fyrirtækja hjá bönkunum. Annaðhvort segjast menn ekki fá neina úrlausn sinna mála eða að verið sé að þrýsta á að þeir óski sjálfir eftir gjaldþroti og að bankinn bjóðist til að borga kostnaðinn við það. Í því tilviki er mjög auðvelt fyrir bankann að segja að ekki hafi verið óskað eftir gjaldþrotaskiptum af hans hálfu heldur að hafi eigandinn gert það en bankinn borgi kostnaðinn við það.

Ég bendi á að það er athyglisvert að skoða tölur um þetta þegar það liggur fyrir því að ríkið óskar nú þegar í mörgum tilfellum eftir gjaldþrotaskiptum. (Forseti hringir.) Árið 2008 voru 40% af þeim fyrirtækjum sem tekin voru til gjaldþrotaskipta tekin að kröfu ríkisins.