136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

meðferð fyrirtækja á vegum ríkisbankanna.

333. mál
[14:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég hef ekki upplýsingar til að svara nákvæmlega fyrir um þessa þætti mála sem hv. þingmaður nú nefnir. Ég undirbjó mig að sjálfsögðu bara fyrir að svara því sem beint er spurt um í fyrirspurninni og ég treysti því að ég hafi þar borið inn í þingið réttar upplýsingar. En þeirra verður að sjálfsögðu að afla hjá viðkomandi aðilum þannig að ég er milligöngumaður um þær upplýsingar inn í sali Alþingis.

Ég er ekki í aðstöðu til að dæma um hvernig samskiptum illa staddra fyrirtækja og bankanna er háttað í einstökum tilvikum og hvort það er fyrir hvatningu frá viðkomandi banka að menn óski eftir gjaldþrotaskiptum eða hvernig það gerist. Lögin eru hins vegar skýr. Stjórnendum ber að óska eftir skiptameðferð ef ekki er rekstrargrundvöllur fyrir fyrirtækjunum og þau eru komin í tiltekna stöðu eins og við þekkjum. Þá hefur það sinn gang samkvæmt lögum og reglum, oft að undangenginni greiðslustöðvun.

Varðandi gjaldþrot sem ríkið tengist sem kröfuhafi eða að kröfur frá ríki verða þess valdandi að fyrirtæki fara í gjaldþrot eru það væntanlega innheimtumenn eða aðrir slíkir aðilar sem oftast eiga þá í hlut. Þeir starfa samkvæmt skýrum lagafyrirmælum og reglum og þau mál hafa yfirleitt bara sinn gang. Almennt er held ég ekki um það deilt að fara að leikreglunum og þeim verður að hlíta. Þó að það sé oft erfitt að horfast í augu við þann veruleika sem þá rennur upp fyrir mönnum eru leikreglur okkar þannig að ef fyrirtæki eiga sér ekki framtíðarvon, ef ekki er rekstrargrundvöllur fyrir þeim og ef ekki tekst að endurfjármagna þau eða greiða úr þeirra vandamálum með einhverjum slíkum hætti, endar það í þeim farvegi.