136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

ferðaþjónusta á Melrakkasléttu.

378. mál
[14:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég legg eftirfarandi fyrirspurn fyrir hæstv. iðnaðarráðherra:

„Hver eru áform ráðherra um stuðning við ferðaþjónustu á Melrakkasléttu?“

Á 133. löggjafarþingi flutti Halldór Blöndal ásamt mér þingsályktunartillögu um úttekt á stöðu og möguleikum á uppbyggingu ferðaþjónustu á Melrakkasléttu og var tillögunni vísað til ríkisstjórnarinnar. Mér leikur forvitni á að vita hvað hafi orðið um þetta mál okkar Halldórs og hvað ráðherra hyggst fyrir þegar kemur að því að styðja ferðaþjónustu á Melrakkasléttu. Hefur t.d. farið fram úttekt á möguleikum á ferðaþjónustu á sléttunni? Mest áríðandi er auðvitað að ljúka veginum til Raufarhafnar, hæstv. ráðherra, en það eru áform um að bjóða það verk út í vor.

Hæstv. forseti. Mikil tækifæri eru fólgin í ferðaþjónustu á Melrakkasléttu, svæðið hefur fjöldamörg sérkenni sem hægt er að byggja á og laða ferðamenn jafnt erlenda sem innlenda að því. Má þar nefna sérstaka náttúru Melrakkasléttunnar sem býður upp á endalausa möguleika fyrir ferðamenn, sólina sem skín með sérstökum hætti þar norður frá og hversu afskekkt svæðið er, sem dregur auðvitað fjöldamarga að því. Fuglalífið er einnig með þeim hætti að það býður upp á mikil tækifæri til fuglaskoðunar. Þar hafa komið fram fullmótaðar hugmyndir en fé skortir til að koma þeim í framkvæmd. Heimamenn hafa nú þegar lagt mikið á sig til að byggja upp ferðamannaþjónustu á svæðinu og fjöldamargar frambærilegar hugmyndir hafa komið fram umfram þær sem nú þegar hafa komist til framkvæmda. Hins vegar hafa þó nokkrir aðilar hætt við nýsköpunarverkefni í ferðaþjónustu vegna þeirrar miklu vinnu sem fer í styrkumsóknir ýmiss konar og eftirfylgni við það og auðvitað er það bagalegt. Margt hefur þó verið gert.

Er þar rétt að nefna sérstaklega heimskautagerði sem Eiríkur Thoroddsen á Raufarhöfn og fleiri aðilar hafa unnið ötullega að og byggir á samspili þjóðararfsins, m.a. í Völuspá, og sólarganginum. Þarna er merkilegt verkefni á ferðinni og mun gerðið fullgert standa sem minnisvarði um hvernig nýta má hugvitið, söguna og þjóðmenninguna í ferðaþjónustu hér á landi. Í þessum þáttum eru mikil auðæfi fólgin og rétt að nýta. Hafa konur á Raufarhöfn t.d. lagt í það að opna gallerí sem framleiðir minjagripi. Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hefur einnig unnið gott starf, m.a. með verkefni tengt strandmenningu og svokallað GEBRIS-verkefni sem hafa vakið upp hugmyndaauðgi heimamanna og hvatt þá áfram til góðra verka. Slík verkefni þarf að halda áfram með.

Að síðustu vil ég nefna fiskveiði í heiðarvötnum sléttunnar, enn önnur hugmynd sem hægt er að byggja á til framtíðar, og í breska blaðinu Evening Standard birtist m.a. grein þar sem hinn virti blaðamaður Neil Collins fór lofsamlegum orðum (Forseti hringir.) um reynslu sína af veiði á svæðinu. Ég veit að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hefur mikinn áhuga á þessu máli.