136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

ferðaþjónusta á Melrakkasléttu.

378. mál
[14:25]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég deili sannarlega þeim áhuga sem hv. þingmaður hefur sýnt á þessu máli. Það gladdi mig að heyra hæstv. fjármálaráðherra koma hér og taka þátt í þessari umræðu með þeim lýríska hætti sem hann einn getur gert.

Einungis eitt af því sem hv. þingmaður nefndi í sinni fyrri tölu er ekki verið að vinna að af hálfu þeirra yfirvalda sem að þessu koma og það er hin sérkennilega sól eins og hún blasir við þeim sem eru staddir á þessum stað á landinu. Einar Ben. skáld vildi selja norðurljósin að sagt var en honum tókst það ekki. Í dag eru menn á þessum slóðum eða í grenndinni að selja norðurljósin. Og eitt af því sem menn eiga auðvitað líka að nota sem sívirkan segul er auðvitað sólin á þessum stað sem er einstök, heimskautasólin, það er óvíða sem menn geta farið og notið hennar.

Það er líka rétt sem hv. þingmaður segir að ferðaþjónustan er auðvitað ein af framtíðargreinunum. Menn hafa ekki alltaf gert sér grein fyrir því hvað hún er mikilvæg tekjulind, ekki síst við það að afla gjaldeyris í þjóðarbúið. Nýlega voru lagðir fram þjóðhagsútreikningar á vegum Hagstofunnar sem ferðaþjónustan hafði lengi beðið eftir. Þar kom í ljós svart á hvítu að áður en Fjarðaál t.d. kom inn í stóriðjuna var ferðaþjónustan jafnoki stóriðjunnar við að draga gjaldeyri inn í landið og hún var hálfdrættingur á við okkar forna og trausta atvinnuveg sjávarútveginn. Við vitum líka að það þarf sennilega minnst fjármagn til að skapa hvert starf í ferðaþjónustu ef við tökum flóru atvinnugreinanna. Það sem er gleðilegt er það að hvert starf sem verður til í ferðaþjónustu er líklegt til að skapa fjögur til fimm önnur í afleiddum störfum. Engin önnur grein hefur þá möguleika. Miðað við þá stöðu sem við erum í núna þar sem við þurfum að búa til gjaldeyri og skapa störf verðum við að ýta undir ferðaþjónustu og það er enginn efi í mínum huga að svæðið sem hv. þingmaður er að tala um er eitt af framtíðarsvæðunum.