136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

skýrsla um afhendingaröryggi orku á Vestfjörðum.

399. mál
[14:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fyrir hæstv. iðnaðarráðherra tvær spurningar sem lúta að afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Þetta er auðvitað mjög brýnt og mikið mál fyrir Vestfirði vegna þess að afhendingaröryggi orku er, eins og menn vita, alls ekki nægjanlegt á þeim slóðum. Það hefur hamlað núverandi atvinnulífi og hefur auðvitað líka áhrif á heimilin. Síðast en ekki síst hefur þetta þau áhrif að á meðan afhendingaröryggið er jafnslakt og raun ber vitni þá hefur það neikvæð áhrif á möguleika okkar á frekari atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum. Þetta er eitt af þeim málum sem mjög er hugað að um þessar mundir fyrir vestan. Menn gera sér grein fyrir því að á meðan þetta ástand varir mun það ekki verða líklegt til þess að laða að ný atvinnutækifæri og hefur að auki slæm áhrif á stöðu atvinnufyrirtækja á Vestfjörðum eins og blasir við öllum.

Menn hafa velt mjög mörgu fyrir sér í þessum efnum og beðið hefur verið í ofvæni eftir skýrslu sem ég veit að hefur verið í undirbúningi af hálfu Landsnets, að ég hygg, um afhendingaröryggi og hæstv. iðnaðarráðherra boðaði raunar, í svari við fyrirspurn hv. þm. Sturlu Böðvarssonar, að væri væntanleg á næstu dögum.

Það er auðvitað þannig að samfélagslegur kostnaður af því að afhendingaröryggi raforku er jafnlélegt og raun ber vitni — ég hef séð útreikninga sem segja að ef skoðuð eru árin 2004–2008 megi segja að samfélagslegur kostnaður, sem menn verða fyrir vegna slaks afhendingaröryggis, svari til svona 100 millj. kr. á ári. Það má segja að heimilin og fyrirtækin, atvinnulífið á Vestfjörðum, verði fyrir því tjóni með beinum hætti af því að rof verði á afhendingu á orku.

Það hefur líka verið reiknað út til lengri tíma hvað þetta þýðir, á t.d. 20 árum, og þeir útreikningar gefa til kynna að samfélagslegur kostnaður á 20 árum fyrir Vestfirði sé yfir 2,5 milljarðar kr. Þetta eru gífurlega háar upphæðir og gefur auga leið að þetta lendir með einum eða öðrum hætti á notendum, hvort sem það eru fyrirtækin eða heimilin. En umfram allt, það vil ég undirstrika, er það að þetta hefur áhrif á möguleika á atvinnuuppbyggingu í framtíðinni.

Margir kostir hafa verið skoðaðir í þessu sambandi og ég geri ráð fyrir að iðnaðarráðherra fari yfir það hér á eftir. Það hefur m.a. verið skoðað mjög alvarlega með hvaða hætti mætti auka raforkuöryggi með virkjunum á Vestfjörðum, Hvalárvirkjun, og um það hefur verið flutt þingsályktunartillaga sem hefur verið samþykkt og það er auðvitað mjög spennandi kostur. En það er hins vegar ljóst að til þess að hægt sé að fara í slíka virkjun þyrfti að leggja fram fjármagn til þess að greiða fyrir dreifinguna. Það er kostnaður sem er samfélagslegs eðlis og þyrfti að fara í jafnvel þó að farnar yrðu aðrar leiðir og þess vegna hef ég spurt hæstv. ráðherra spurninga sem lúta að þessu tvennu.