136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

skýrsla um afhendingaröryggi orku á Vestfjörðum.

399. mál
[14:31]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er mikill áhugamaður um að það takist að virkja Hvalá og vil leggja mitt af mörkum til þess að það verði hægt í framtíðinni. Það er alveg rétt sem ég sagði hér í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni fyrir nokkru að það væri að vænta skýrslu frá Landsneti um þessi efni. Ég held að ég hafi lofað henni í þeirri viku. Raunin varð ekki sú og ég verð því miður að segja það við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson að skýrslan liggur ekki fyrir í endanlegri gerð. Hún liggur hins vegar fyrir í drögum og var í gær kynnt iðnaðarráðuneytinu í formi draga og reyndar líka Vesturverki sem er framkvæmdaraðili Hvalárvirkjunar.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara í neinum ítarlegum atriðum á þessu stigi yfir smáatriði varðandi þetta. Ég ætla að svara þeim spurningum sem hv. þingmaður varpaði til mín og beinast fyrst og fremst að því með hvaða hætti hið opinbera, þ.e. samfélagið, geti lagt gjörva hönd á þetta verk.

Ég hef þegar svarað fyrstu spurningu hv. þingmanns, hann spyr um það hvenær megi vænta þess að skýrslunni verði lokið, og svarið er sem sagt það að hún verður gefin út í endanlegri mynd á næstu dögum. Hv. þingmaður spyr síðan hvort ég telji koma til álita að styðja sérstaklega við gerð Hvalárvirkjunar til þess að stuðla að auknu raforkuöryggi á Vestfjörðum. Ég hef margsinnis sagt það hér úr þessum ræðustóli að ég tel að það komi til álita. Ég tel að það skipti mjög miklu máli varðandi t.d. möguleika á að fá nýjan iðnað sem mundi henta Vestfjörðum, gagnaver og annað, til að skapa störf. Ég tel að það skipti miklu máli til þess að tryggja afhendingaröryggið á Vestfjörðum sem er miklu verra en annars staðar. Á þetta hef ég lagt mikla áherslu og sömuleiðis að það sé rétt að skoða alla kosti í þessum efnum.

Að því er snýr beint að aðkomu ríkisins að Hvalárvirkjun þá hef ég sagt, og ég ítreka það hér, að ég tel að það komi til álita að styðja sérstaklega við gerð virkjunarinnar að því marki sem lög og fjárhagur ríkisins heimila. En ástæðan fyrir þessu er í reynd þau rök sem komu fram hjá hv. þingmanni í framsögu hans fyrir fyrirspurninni. Hún er sú að í Hvalárvirkjun felst bæði ábati fyrir Landsnet, sem meta má á 500 millj. kr., og sömuleiðis samfélagslegur ábati, sem er metinn á yfir 2 milljarða kr., og það verður auðvitað að bera saman aðra kosti sem eru í þessari stöðu. Af því dreg ég þá ályktun að sá skynsamlegi kostur hljóti að koma til greina að Hvalárvirkjun njóti að minnsta kosti góðs af þeim ábata sem mundi fylgja henni sjálfri. Þá verður í þessum vangaveltum að hafa það í huga að framleiðsla og sala á raforku er samkeppnisstarfsemi þannig að það setur því ákveðnar skorður hversu langt er hægt að ganga í beinum stuðningi við virkjunina.

Ég hef áður sagt að það þurfi að skoða hvað lög heimila á þessu sviði og það er þannig að svigrúmið til þess að taka tillit til þessa samfélagslega ábata er að mínu mati ekki nægilega vítt. Það þrengir þessa möguleika. Í þeirri endurskoðun sem stendur yfir á raforkulögum tel ég að sérstaklega þurfi að skoða þetta atriði. Ég tel sem sagt að þegar menn standa andspænis þeim möguleika að búa til orku með þessum hætti og spara samfélaginu þannig upphæð þá verði það að vera kleift. En það eru mjög þröngar skorður sem slíkum áformum eru settar samkvæmt núgildandi lögum.