136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

skýrsla um afhendingaröryggi orku á Vestfjörðum.

399. mál
[14:35]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn og ráðherranum fyrir svör hans. Ég held að það verði seint nógu þung áhersla lögð á það hversu nauðsynlegt það er fyrir þróun byggðar á Vestfjörðum að afhendingaröryggi raforku verði meira en það er nú og hefur verið um margra ára skeið. Til þess að landsvæðið geti haldið velli í samkeppni við aðra landshluta, sérstaklega höfuðborgarsvæðið, þurfa þessir hlutir að vera í góðu lagi. Því miður fer því víðs fjarri að svo sé, fyrst og fremst vegna þess að í fjórðungnum er framleiddur svo lítill hluti af því rafmagni sem þarf að nota og menn treysta um of á rafmagn sem flutt er langar leiðir.

Ég vil láta það koma hér fram að hæstv. iðnaðarráðherra hefur margsinnis sagt það hér á Alþingi að hann styðji framgang þessa máls og ég vænti þess að hann hafi fullan stuðning ríkisstjórnar sinnar (Forseti hringir.) til þeirra verka, eins og þeirrar síðustu, og vil brýna hann til dáða í þessum efnum.