136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

skýrsla um afhendingaröryggi orku á Vestfjörðum.

399. mál
[14:38]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir orð hæstv. iðnaðarráðherra og hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um að það sé mjög brýnt að leggja samfélagslegt mat á Hvalárvirkjun og möguleika hennar, bæði til þess að styrkja innviði atvinnulífs og rafmagnsöryggi á Vestfjörðum enda uppfylli það öll umhverfisleg skilyrði.

En afhendingaröryggi er líka háð línulögnum innan fjórðungsins og framkvæmdir á því sviði hafa alls ekki fengið þann nauðsynlega framgang sem þörf var á. Áhersla hefur verið lögð á línulagnir fyrir stóriðju vítt og breitt um landið en Vestfirðir orðið útundan á undanförnum árum. Þar þarf að taka til hendinni nú strax.

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. iðnaðarráðherra: Er ekki hægt að beita styrk bæði Rariks og (Forseti hringir.) Orkubús Vestfjarða nú þegar til þess að taka þátt í nýsköpun á Vestfjörðum og einnig til þess að styrkja (Forseti hringir.) afhendingaröryggið?