136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

stuðningur við íslenskan landbúnað.

379. mál
[14:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Því er fljótsvarað að það er ekki á stuttum starfstíma núverandi ríkisstjórnar að vænta einhverra meiri háttar stefnubreytinga í málefnum landbúnaðarins. Nægjanlegt er við að glíma það sem flokka má undir það sem hv. þingmaður kallaði réttilega bráðavanda. Ég tek undir með fyrirspyrjanda að mönnum hefur orðið betur ljóst hvert gildi landbúnaðarins og matvælaiðnaðarins er við þær aðstæður sem hafa barið að dyrum á Íslandi, og það er vel. Sömuleiðis er ég sammála því að mikil tækifæri eru í íslenskum landbúnaði um leið og við umtalsverða erfiðleika er að glíma þar ekki síður en í mörgum öðrum atvinnugreinum.

Málefni landbúnaðarins eru kannski umfram flestar og sennilega allar aðrar greinar hvað stefnu stjórnvalda varðar bundin af lögum og samningum. Þau eru í þeim föstu skorðum að á grundvelli laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, eru gerðir samningar, svokallaðir búvörusamningar við Bændasamtökin og einstakar greinar þar. Það er sauðfjársamningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Sá samningur sem nú gildir tók gildi 1. janúar 2008 og gildir til 31. desember 2013 og markmið þess samnings er eins og menn þekkja að efla sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda, stuðla að nýliðun og margt fleira má nefna sem má svo sem deila um hversu vel gengur. Í öðru lagi er samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar sem tók gildi í september 2005 og gildir til 31. ágúst 2012. Í þriðja lagi aðlögunarsamningur um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða sem tók gildi 1. janúar 2002 og gildir til ársloka 2011. Þá er í gildi svokallaður búnaðarlagasamningur sem undirritaður er af landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra um verkefni samkvæmt búnaðarlögum og hann er í gildi á árabilinu 2006–2010. Stuðningur við loðdýrarækt er í tilteknum farvegi á grundvelli samkomulags ríkisvalds og loðdýrabænda og þannig mætti áfram telja. Landbúnaðarstefnan er því að mjög miklu leyti bundin af hálfu stjórnvalda á grundvelli laga og samninga, löggerninga sem um þetta gilda. Engu að síður hefur svo tekist til að beingreiðslur, samkvæmt þessum sömu búvörusamningum til sauðfjárbænda og mjólkurframleiðenda og reyndar einnig að nokkru leyti stuðningurinn við garðyrkjuna, voru skornar niður í fjárlögum yfirstandandi árs. Ég hef átt viðræður við Bændasamtökin um þá stöðu og þar er mönnum alveg ljóst að ekki eru horfur á að sú skerðing gangi til baka. Fjármunir eru ekki í hendi og engar fjárheimildir til að gefa undir fótinn með slíkt. Engu að síður væri affarasælast fyrir báða aðila ef í anda góðra samskipta þeirra á umliðnum árum tækist að semja um framhald þeirra mála og það er opið af okkar eða minni hálfu sem ráðherra að gera það.

Ríkið hefur frá sinni hlið verið að kanna aðeins stöðu sína í málinu, m.a. lagalega í framhaldi af því að Bændasamtökin hafa látið greina stöðu sína og gera lögfræðiálit. Ég hef boðið upp á það, og er með umboð frá ríkisstjórninni til þess, að þegar slík vinna er búin gætu menn í öllu falli hafið eitthvað sem menn kölluðu óformlegar könnunarviðræður í fyrstu umferð, ef til vill ekki formlegar samningaviðræður fyrr en ljóst væri að einhverjir fletir væru á málum. Ég held að allir mundu að sjálfsögðu gleðjast yfir því að hægt væri að koma þessu út úr heiminum með einhvers konar samningum um framhaldið því báðir þessir aðilar eiga mjög mikið undir því að samskiptin haldist í uppbyggilegum farvegi og séu í sátt.

Gripið hefur verið til tiltekinna ráðstafana, svo sem eins og þeirra að auðvelda bændum uppgjör virðisaukaskatts. Það var gert í samkomulagi landbúnaðarráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins þar sem frestir voru lengdir og vaxtareikningar felldir niður, sem og að þeim tilmælum var beint til skattstjóra að nýta heimildir laga um aukauppgjörsdag á virðisaukaskatti í þágu þeirra sem það hentaði.

Í þinginu er frumvarp um breytingu á lögum um Bjargráðasjóð þar sem ætlunin er að nýta í einhverjum mæli fjármuni þess sjóðs til að aðstoða bændur við áburðarkaup í vor. Verkefni er að fara af stað sem ætlað er til að auka starfsemi landshlutabundinna skógræktarverkefna í ár svo ekki komi til tilfinnanlegs samdráttar þar og að jafnvel plöntur fari forgörðum sem ella mundi gerast að óbreyttum fjárveitingum. Ég reikna með að landbúnaðarráðuneytið, Framleiðnisjóður og fleiri aðilar reyni að leggja til einhverja fjármuni í því skyni þannig að það verkefni geti farið af stað og skapað allmörg störf og sömuleiðis hefur verið í skoðun atvinnuátaksverkefni á breiðari grunni á sviði landgræðslu, skógræktar og ýmissa umhverfisverkefna Þannig er ýmislegt verið að reyna að gera, bæði til að aðstoða atvinnugreinina og nýta möguleika innan hennar til að skapa störf og verðmæti.