136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

stuðningur við íslenskan landbúnað.

379. mál
[14:53]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég er sannfærður um að íslenskur landbúnaður, bændur og innlend matvælavinnsla mun leika lykilhlutverk í endurreisn þess atvinnulífs sem við viljum byggja upp á næstu árum. Þar er mjög mikilvægt að breytt sé um stjórnarstefnu frá því sem áður var og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur þegar tekið stór skref í þeim efnum.

Ég vil spyrja um það samráð sem hefur verið á milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum og aðild Bændasamtakanna að því. Ég man að ég spurði fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, um þetta og honum fannst ekki ástæða til að vera að hafa þá með í slíku samráði, en ég spyr hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra: Er ekki eðlilegt að bændur og samtök þeirra komi inn á þann samráðsvettvang sem nú tekst á við þau alvarlegu mál sem við stöndum frammi fyrir.