136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

stuðningur við íslenskan landbúnað.

379. mál
[14:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi hug á að hefja könnunarviðræður við Bændasamtökin og halda áfram því starfi sem fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var byrjaður með.

Ég fékk ekki alveg svör við því hvort hugsanleg stefnubreyting sé hjá hæstv. ráðherra um að hann hafi hug á að fara meira út í grænar greiðslur. Ástæða þess að ég spyr um þetta er sú að því var gefið undir fótinn í viðtali sem haft var við ráðherrann, a.m.k. á þann hátt að nokkrir bændur hafa haft samband við mig og haft af því áhyggjur að þarna væri einhver stefnubreyting fram undan. Mér þætti vænt um að fá einhver svör við því vegna þess að ég hef orðið vör við að þetta hafi valdið nokkrum óróa meðal bænda, að hugsanlega sé á einhvern hátt verið að kippa fótunum undan því kerfi sem nú hefur með ágætu samráði, samvinnu og samningum komist á varðandi þá samninga sem nú eru í gildi við Bændasamtökin, þ.e. um mjólk, sauðfé og grænmeti. Ég held að mjög mikilvægt sé að við fáum að vita hvort nokkur fótur er fyrir því að hæstv. ráðherra ætli að umbylta þessu kerfi á skömmum tíma þannig að bændur geti ekki verið alveg klárir á því hvar þeir standa með sinn rekstur.