136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

stuðningur við íslenskan landbúnað.

379. mál
[14:57]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vona að bændur geti verið sæmilega öruggir um hvar þeir hafa mig. Ég hef öflugt bakland og aðhald, m.a. frá fjölskyldu minni þegar kemur að íslenskum bændum, menn þurfa því ekki að óttast að ég sé ekki sæmilega tengdur þar.

Ég geri ráð fyrir að ummæli sem ég lét falla á búnaðarþingi hafi verið tilefni til þessara vangaveltna því þar gaf ég vissulega sterklega til kynna að það væri skoðun mín að í framtíðinni, að sjálfsögðu ekki fyrr en að loknum kosningum og þá í höndum nýrra stjórnvalda, væri ástæða til að hefja stefnumótunarvinnu og horfa lengra fram í tímann. Þá er ég að tala um langt fram yfir gildistíma núverandi búvörusamninga. Ég er að tala um landbúnaðarstefnu til lengri tíma, menn ættu að setjast yfir það verkefni og hafa þá nægan tíma fyrir sér til að leggja línur um framhaldið og ég er áhugasamur um að við þróum kerfi í átt til — já, við getum kallað það grænna greiðslna. Ég hef lengi talið að einhvers konar búsetutengdur grunnstuðningur ætti að vera hluti af stuðningnum við landbúnaðinn til að auðvelda nýliðun í greininni og til að framseljanleg framleiðsluréttindi væru ekki of hár þröskuldur fyrir kynslóðaskiptum, en það þýðir ekki að til standi að fara að hrófla við eða hlaupa frá gildandi samningum. Ég get tekið af allan vafa um að ekkert slíkt er á dagskrá í þeim efnum.

Ég vil taka fram, af því ég kom því ekki að í fyrri ræðu minni, að það hefur sömuleiðis verið ákveðið og er í vinnu í ráðuneytinu að fara yfir allt sem lýtur að sölu og markaðssetningu afurða beint frá býli. Ætlunin er að fyrir vorið verði búið að skýra það regluverk og koma betur á framfæri upplýsingum um hvað menn geta og hvað ekki í þeim efnum. Svo virðist vera að margir óttist að þar sé erfiðara regluverk og fleiri þröskuldar en raunverulega eru til staðar þegar málin eru skoðuð og menn kannski verið of hikandi og hræddir við það að ráðast í slíka hluti af því að þeir hafa gefið sér fyrir fram að það væri torveldara en raun er á.

Varðandi spurningu um samráð ríkisstjórnar við aðila vinnumarkaðarins og hvort Bændasamtökin eigi ekki að vera þar með, þá er mitt svar jú, alveg hiklaust. Það samráð er í höndum forsætisráðherra sem undirbýr þá fundi og velur þá aðila sem þangað koma. Ég get komið þeim skilaboðum (Forseti hringir.) á framfæri og mér finnst það vera í anda þess sem ég held gjarnan á lofti að bændur og landbúnaður lögðu sitt af mörkum (Forseti hringir.) með eftirminnilegum hætti í þjóðarsáttinni á sínum tíma og eru vísir til að gera það aftur ef á þarf að halda. (Gripið fram í: ... samkeppnislög.)