136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

efling kræklingaræktar.

380. mál
[15:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé kannski sanngjarnt að viðurkenna að kræklingaræktin hafi verið svolítið munaðarlítil, ekki alveg munaðarlaus en ekki nægjanlega vel að henni hugað. Ég ásaka ekki einn eða neinn sérstaklega, ég held einfaldlega að það hafi verið ákveðnar efasemdir, ákveðin vantrú á að þessi grein ætti hér góða framtíðarmöguleika. Menn færðu fram rök eins og þau að héðan væri fjarlægð á markaði það mikil o.s.frv. að hún ætti erfitt með að verða samkeppnisfær. Ég vona að það sé að afsannast. Sá árangur sem menn hafa náð er afar athyglisverður, t.d. í Hrísey eða Eyjafirði eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi. Þar hefur sömuleiðis náðst mikill árangur í gegnum samstarf við Kanadamenn sem hafa komið með verðmæta þekkingu inn í greinina og menn hafa þar af leiðandi getað stytt sér svolítið leið í því mikla þróunarstarfi og þeirri þekkingaruppbyggingu sem þetta frumkvöðlastarf hefur verið.

Hvað varðar umhverfisvöktunina er staðan sú að á undanförnum árum hefur verið ráðstafað á fjárlögum líklega um 3 millj. kr. til rannsókna sem snúa að umhverfisvöktun. Þessar rannsóknir beinast einkum að athugun á mengun, eiturþörungum, þungmálmum og fleiru slíku á fyrirhuguðum ræktunarsvæðum. Matvælastofnun hefur eftirlit með svæðunum og framleiðslunni eftir að heilnæmiskönnun lýkur.

Nefnd á vegum ráðuneytisins vinnur nú að tillögugerð um hvernig stofnanir hins opinbera geti stutt best við rannsóknir sem koma greininni til góða og gert er ráð fyrir að nefndarstarfinu ljúki síðar á þessu ári.

Það eru átta kræklingaræktarsvæði í heilnæmiskönnun í dag og gert er ráð fyrir að rannsókn á fyrstu svæðunum ljúki nú í sumar þannig að framleiðsla gæti þá hafist á þeim svæðum. Þessi svæði eru einkum á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi.

Í öðru lagi er spurt: Hefur ráðherra áform um að stuðla að eflingu kræklingaræktar?

Svarið er já, það er þegar komið vel í gang í ráðuneytinu eftir að ég kom þangað. Það hefur m.a. verið fundað með aðilum og sömuleiðis hefur sjávarútvegsnefnd Alþingis sýnt frumkvæði í því máli og formaðurinn verið í samstarfi í framhaldinu við ráðuneytið. Kræklingaræktin hefur haft mjög takmarkaðan aðgang að fé úr opinberum sjóðum, eitthvað lítils háttar úr AVS-sjóðnum, en nú er orðin dálítil breyting þar á því að skipulag rannsóknanna í heild sinni er nú í vinnslu. Ásamt kræklingaræktendum og opinberum stofnunum er unnið að því og mér er nær að halda að þegar sé búið að ákveða að eyrnamerkja nokkurt fé til þess verkefnis þannig að vonandi geti komist meiri skriður á þessi mál en verið hefur. Ég held að það sé orðið tímabært. Það tilrauna- eða þróunarstarf sem við getum sagt að hetjuleg barátta frumkvöðlanna hafi í eðli sínu verið hefur þegar lagt grunn að því að menn geti farið af stað í þetta sem alvöruatvinnugrein og þá eru möguleikarnir gríðarlegir. Það verða þá væntanlega fyrst og fremst markaðsaðstæðurnar og afkoman sem ráða því í hversu stórum stíl slík ræktun getur farið hér fram. Kræklinginn er hægt að ala mjög víða við landið og aðstæður eru víða ágætar til þess eins og komið hefur í ljós og nógur er sjórinn þannig að við ættum að geta bundið talsverðar vonir við að hér væri að bætast við álitleg stoð í matvælastóriðju okkar sem er samtals sjávarútvegur og landbúnaður hér í landinu og úrvinnsla og framleiðsla matvæla úr þeim greinum, bæði í okkar eigin þágu og til útflutnings.