136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

efling kræklingaræktar.

380. mál
[15:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að minna á að í tíð minni sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setti ég á laggirnar nefnd til að marka stefnu varðandi stuðning við kræklingaeldi og stefnumótun varðandi það. Sú skýrsla hefur legið fyrir, þeirri vinnu lauk á síðasta ári. Það var að mínu mati tímamótavinna þar sem því var m.a. slegið föstu af þeim sérfræðingum sem þar unnu og fólki úr atvinnulífinu að það væru mjög miklir möguleikar í kræklingaræktinni. Fram undir þetta hafði menn greint á um þetta en þarna var sýnt fram á það svart á hvítu.

Sömuleiðis var lagt á ráðin um það með hvaða hætti hið opinbera ætti að koma að því að styðja við uppbyggingu kræklingaræktar, svo sem eins og með því að standa fyrir vöktun á kræklingaræktarsvæðum og líka stuðning varðandi það hvernig hægt væri með sem skynsamlegustum hætti að flytja þessar afurðir til markaðslandanna. Þessi vinna var öll hafin í minni tíð og ég beindi sömuleiðis þeim tilmælum til AVS-stjórnarinnar að tekinn yrði upp stuðningur við kræklingaræktina í ljósi þess að búið væri að vinna þessa stefnumótunarvinnu og sýna fram á mikilvægi og notagildi kræklingaræktar. Ég hvet (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra til að halda því verki áfram vegna þess að sú stefnumótunarvinna er mjög mikilvæg og er grundvöllur þess sem þarf að gera í kræklingaræktinni á Íslandi.