136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

efling kræklingaræktar.

380. mál
[15:09]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Mér er ánægjuefni að upplýsa það að nýskipuð sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd tók þetta mál föstum tökum á fyrstu tveim fundum nefndarinnar eftir að hún var skipuð. Ný ríkisstjórn tók þessi mál sérstaklega upp að beiðni skelfiskræktenda.

Fyrri fundurinn með þeim leiddi til þess að fundur var haldinn með Hafró, ráðuneytinu og AVS-sjóðnum sem stendur fyrir aukið virði sjávarfangs. Það kom mér á óvart að upplifa að þessi grein hefði verið olnbogabarn og fulltrúar skelfiskræktar sögðu farir sínar ekki sléttar. Það var farið í málið, þeir áttu síðan fund í ráðuneytinu, þeir áttu fund með AVS-sjóðnum og þar hefur aukinn styrkur verið veittur, um að ég hygg upp undir 5 millj. kr., til verksins. Svo er fyrirhugaður fundur um málið í ráðuneytinu á föstudagsmorgun. Ríkisstjórnin og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra munu taka þetta mál föstum tökum og það veitir ekki af. Þarna eru verulega miklir möguleikar og þarna er sprota- og nýsköpunarstarfsemi í gangi.