136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

samningur um siglingar yfir Breiðafjörð.

387. mál
[15:40]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá fyrirspurn sem hér er borin fram og svör hæstv. ráðherra, sem eru ánægjuleg að mörgu leyti. Þó vil ég segja að ég tel þurfa að gera betur í þessum efnum, bæði hvað varðar að tryggja siglingarnar til lengri tíma en út maí 2011 — það er fyrirsjáanlegt að vegabótum verður ekki lokið á þessari leið á þeim tíma — og hins vegar þurfa að vera fleiri ferðir til að þjónusta og aðkoma að þessu svæði sé með þeim hætti sem fólk vill hafa um þessar mundir. Það þurfa að vera ferðir kvölds og morgna, bæði hvað varðar flug inn á svæðið og áætlunarferðir Baldurs, til þess að vel sé. Mér er ljóst að auðvitað kostar það töluvert fé úr ríkissjóði en ég held að það sé það sem raunverulega þarf til að styrkja svæðið og gera það samkeppnishæfara.