136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

samningur um siglingar yfir Breiðafjörð.

387. mál
[15:42]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, Herdísi Þórðardóttur, fyrir að vekja máls á þessu og sömuleiðis fagna ég þeirri yfirlýsingu hæstv. samgönguráðherra sem hann flutti hér áðan. Þó vil ég segja að það er alveg ljóst að það verður auðvitað að framlengja þennan samning enn þá lengur. Það hafa orðið algjörlega óafsakanlegar tafir á vegauppbyggingu við sunnanverða Vestfirði og það er einfaldlega ekki líðandi eins og þetta er.

Vegasambandið þarna er með því allra versta sem þekkist í landinu við þéttbýlisstaði af þessari stærð og þeir vegir sem þarna er ekið um standa einfaldlega ekki undir því nafni að geta kallast vegir, fyrir utan það að fjarskiptasamband á þessari leið er óviðunandi þar að auki. Það er alveg ljóst að við verðum að herða á þessu og það verður að herða á þessum framkvæmdum. Að vísu er að hluta til hægt að afsaka þetta með þeim töfum sem hafa orðið út af, að mínu mati, tilefnislausum málaferlum (Gripið fram í.) en engu að síður þarf að fara þá í framkvæmdir á öðrum svæðum þarna til að hraða þessari uppbyggingu (Forseti hringir.) sem er bráðnauðsynleg forsenda fyrir byggðinni á sunnanverðum Vestfjörðum.